Hlutabréfaverð skráðra félaga á aðalmarkað Kauphallar Íslands hækkaði að meðaltali um 1,5% daginn eftir að uppgjör þeirra birtust fyrir þriðja ársfjórðung þessa árs. Hlutabréfaverð hefur ekki hækkað jafn mikið að meðaltali á næsta viðskiptadegi frá birtingu uppgjörs í 19 ársfjórðunga eða frá því á fjórða ársfjórðungi árið 2014.

Alls hækkuðu bréf ellefu fyrirtækja í verði, sex þeirra lækkuðu auk þess sem tvö þeirra stóðu í stað en vert er að geta þess að Iceland Seafood sem færði sig nýlega yfir á aðalmarkaðinn mun birta uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun markaða í dag. Mesta hækkunin varð á bréfum Icelandair eða 7,8% auk þess sem bréf Arion banka og Sjóvá hækkuðu bæði um 5,3%. Mest lækkun varð á bréfum Marel sem lækkuðu um 1,66% auk þess sem bréf Kviku banka lækkuðu um 1,5%.

Icelandair á fleygiferð

Þegar hreyfingar á hlutabréfaverði daginn eftir uppgjör síðustu þriggja ára eru skoðaðar sést að mest hreyfing hefur verið á bréfum fyrirferðarmikilla félaga í Kauphöllinni. Það þarf ekki að koma mikið á óvart að hvort sem síðustu fjórir, átta eða tólf ársfjórðungar eru skoðaðir þá trónir Icelandair Group á toppnum sem það félag þar sem mest hreyfing eða flökt hefur verið á hlutabréfaverði eftir að uppgjör birtist. Þess ber að geta að hér er átt við hreyfingar bæði til hækkunar og lækkunar en meðaltalið segir ekki til um hvort bréfin hafi hækkað eða lækkað. Við samantektina var stuðst við skjal byggt á Kodiak Excel sem hinn leyndardómsfulli Twitter notandi, Kapítalistasvín, tók saman.

Eftir uppgjör síðustu fjögurra ársfjórðunga hreyfðust bréf Icelandair Group að meðaltali um 8,4% en á því tímabili lækkuðu bréfin tvisvar um meira en 9% en eftir birtingu síðasta uppgjörs hækkuðu þau um 7,8% sem var jafnframt mesta hækkun eins félags á nýafstöðnum fjórðungi. Bréf bæði Marel og Brims hreyfðust um 3,4% að meðaltali eftir síðustu fjögur uppgjör. Bréf Marel hækkuðu tvisvar á tímabilinu um yfir 4% en lækkuðu um 1,1% og 1,6% eftir síðustu tvo fjórðunga. Bréf Brims hafa hins vegar hækkað eftir birtingu síðustu fjögurra uppgjöra og var hækkunin á bilinu 2,4-4,4%. Á sama tímabili hreyfðust bréf VÍS, Reita og Kviku banka um 1% en það voru Heimavellir sem ráku lestina en meðalhreyfing á bréfum leigufélagsins var einungis 0,4%.

Þegar litið er yfir síðustu átta ársfjórðunga þá var meðalhreyfing á bréfum Icelandair 6,7%. Á fyrrgreindu tímabili koma bréf Festi svo í öðru sæti en meðalhreyfing þeirra var 3,6% en þar munar mestu um 5,5% lækkun eftir birtingu fyrsta ársfjórðungs 2018 og 9,9% lækkun eftir birtingu uppgjörs fyrir þriðja ársfjórðung sama ár en þess má þó geta að sú lækkun gekk alfarið til baka næsta viðskiptadag þar á eftir. Þriðja mesta hreyfingin var svo á bréfum Marel en meðalhreyfing á bréfum félagsins var 3,4% á tímabilinu. Minnst hreyfing var hins vegar á bréfum VÍS en þau hreyfðust um 0,8% á tímabilinu.

Fyrir síðustu 12 uppgjör eru það svo sömu félög sem raða sér efst á listann yfir mest flökt eftir uppgjör. Meðalhreyfing á bréfum Icelandair á tímabilinu er 5,9% en sjö sinnum hreyfðist hlutabréfaverð um meira en 7,5%, tvisvar til hækkunar en fimm sinnum til lækkunar. Mesta lækkunin á tímabilinu var eftir birtingu uppgjörs fyrir fjórða ársfjórðung síðasta árs en þá lækkuðu bréf félagsins um 15,9% sem er jafnframt mesta hreyfing á bréfum félags á fyrrgreindu tímabili. Bréf Festi hreyfðust að meðaltali um 3,5% á tímabilinu en þau lækkuðu átta sinnum, hækkuðu þrisvar og stóðu einu sinni í stað. Segja má að hreyfing á bréfum Marel hafi verið mest stöðug eftir því hvaða tímabil er skoðað en þau hreyfðust að meðaltali um 3,4% á öllum tímabilunum og munaði aðeins 0,02 prósentustigum milli tímabilanna. Bréf Marel hækkuðu sex sinnum í verði á tímabilinu en í fimm af sex skiptum varð hækkunin yfir 4%. Í fimm skipti lækkuðu bréfin og í eitt skipti stóðu þau í stað. Minnst hreyfing var svo á bréfum VÍS og Eikar fasteignafélags en hún nam einu prósentustigi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .