Töluverðar hreyfingar urðu á gengi bréfa flestra félaga daginn eftir að þau birtu uppgjör sitt fyrir fjórða ársfjórðung. Af félögunum 20 varð meiri en 2% hreyfing á bréfum 14 þeirra en að meðaltali lækkuðu þau um 0,2%. Alls hækkuðu 8 félög í verði daginn eftir birtingu uppgjörs þar sem mest hækkun varð á bréfum Icelandair eða 7,2% en þá hækkuðu bréf Reita um 4,4% og bréf Símans um 4,1%. Mest lækkun varð hins vegar á bréfum Eimskips eða 5,3% auk þess sem bréf Kviku lækkuðu um 3,9%.

Hafa ber í huga að alls sex félög birtu uppgjör í síðustu viku þegar lækkunarhrina gekk yfir markaðinn sem kom til vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Þegar litið er yfir verðþróun daginn eftir ársfjórðungsuppgjör síðasta árs þarf lítið að koma á óvart að mest hreyfing hafi verið á bréfum Icelandair Group en hún var að meðaltali 6,2% en bréf félagsins hafa hreyfst um meira en 7% í kjölfar sex af síðustu átta uppgjörum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .