Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 0,31%, í 3,2 milljarða heildarviðskiptum, og fór hún í 2.146,45 stig.

Mest lækkun var á gengi bréfa Brim, eða um 2,75%, í 1.271 milljóna króna viðskiptum og fór gengið niður í 38,90 krónur, í jafnframt langmestu veltunni með bréf í einu félagi í dag.

Hefur lokagengi bréfa félagsins, sem áður hét HB Grandi, ekki verið jafnhátt síðan 30. mars 2016. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag , seldi Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brim í gegnum félag sitt ÚR fyrir tæplega 1,2 milljarða króna í félaginu í dag.

Gengi bréfa félagsins fór hæst 9. október 2015, í 43,6 krónur, en síðan þá fór það lægst um ári seinna, eða 20. október 2016, þegar það fór í 24,6 krónur, eftir lækkun um 43,6%. Síðan þá hefur hækkun bréfanna numið 58,1%.

Næst mest lækkun var á gengi bréfa Iceland Air, eða um 2,64%, niður í 7,75 krónur, í 179 milljóna króna viðskiptum. Þriðja mesta lækkunin var á gengi bréfa TM, eða um 2,08%, í 166 milljóna króna viðskiptum, niður í 35,30 krónur.

Næst mesta veltan var með bréf Marel, eða fyrir 568 milljónir króna, en gengið stóð í stað í 629,0 krónum. Þriðja mesta veltan var með bref Arion banka, eða fyrir 255 milljónir og lækkuðu þau um 1,09%, niður í 81,50 krónur.

Lítil velt með bréfin sem hækkuðu

Mest hækkun var á gengi bréfa Haga, eða um 2,18%, en þó ekki nema í 13 milljóna króna viðskiptum, og fór gengið í 44,55 krónur. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Símans, eða um 0,58%, en í jafnlitlum viðskiptum og fór gengið í 5,22%.

Tvö önnur félög hækkuðu í virði í kauphöllinni í dag, Icelandic Seafood sem hækkaði um 0,41% í 37 milljóna króna viðskiptum og endaði í 9,85%, og Sýn sem hækkaði um 0,16%, upp í 31,60 krónur, í 5 milljóna króna viðskiptum.

Frífljótandi krónur styrktust gagnvart íslensku krónunni

Gengi krónunnar styrktist gagnvart helstu viðskiptamyntum sínum, nema norrænu krónunum tveim sem fljóta, það er sænsku og norsku krónunni, sem styrktust um annars vegar 0,08%, í 13,064 krónur og hins vegar um 0,21%, í 13,578 króna kaupgengi.

Evran veiktist um 0,15% gagnvart krónunni, eða niður í 136,35 krónur, Bandaríkjadalur veiktist um 0,24%, í 122,37 krónur og breska pundið veiktist um 0,23%, niður í 163,27 króna kaupgengi.