Nú þegar árið 2013 er að líða undir lok má til gamans rifja upp mest lesnu fréttir á árinu. Þetta er fyrsta heila árið sem VB Sjónvarp hefur verið starfandi og margt hefur gerst á þeim tíma. Fréttir af bönkunum og hlutabréfakaupum, Íbúðalánasjóði og veitingastöðum voru meðal þeirra sem voru vinsælar á árinu.

5. „Lélegasta viðskiptaáætlun sem ég hef séð“

Agnar Sigurðsson, stofnandi Transmit, veitti innsýn inn í hugarheim fjárfestingasjóða og frumkvöðla á hádegisfundi Klaks Innovit. VB Sjónvarp sýndi frá þessum fyrirlestrum sem haldnir voru á þriðjudögum.

4. Höskuldur: Ég kaupi ekki hlutabréf

Mikil umræða var um hlutabréfakaup starfsmanna bankanna í kjölfar ummæla framkvæmdastjóra H.F. Verðbréfa sem gagnrýndi slík kaup. Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, sagði það full langt gengið að banna starfsmönnum bankans að kaupa hlutabréf. Sjálfur sagðist hann þó ekki kaupa hlutabréf.

3. Björgólfur Thor: „Einhverra hluta vegna er Icesave tengt við mig“

Björgólfur Thor Björgólfsson, fyrrum eigandi Landsbankans, furðaði sig á því að upplýsingar um að þrotabú Landsbankans hefði átt fyrir Icesave-skuldum hefðu ekki verið gerðar opinberar fyrr. Hann sagði umræðuna á Íslandi hafa verið óréttláta og ofsafengna.

2. „Sjóðurinn er risastór banki“

Tap Íbúðalánasjóðs nam 167 milljörðum króna og uppgreiðsluáhætta þar að auki 100 milljörðum króna. Þetta kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð. VB Sjónvarp ræddi við Kristínu Flygenring hagfræðing og Jón Þorvald Heiðarsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri.

1. Simmi og Jói sýna nýja staðinn

Veitingastaðurinn Hamborgarafabrikkan opnaði í maímánuði fyrir neðan KEA Hótel. Miklar breytingar voru gerðar á húsnæðinu áður en staðurinn opnaði. VB sjónvarp leit við í heimsókn í apríl og skoðaði nýja staðinn.