Fréttir af fólki eru alltaf vinsælar meðal lesenda Viðskiptablaðsins og vb.is. Við skulum til gamans rifja upp fimm mest lesnu fréttirnar af fólki á vef Viðskiptablaðsins á árinu.

5. Jón Steinar stofnar ráðgjafafyrirtæki

Í byrjun desember greindi Viðskiptablaðið frá því að Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, hefði stofnað ráðgjafafyrirtækið JSG ráðgjöf ehf. „Þessi þjónusta er fyrst og fremst hugsað fyrir lögmenn og lögmannastofur," sagði Jón Steinar við Viðskiptablaðið, nánar aðspurður um starfsemi fyrirtækisins. Þá sagði Jón Steinar að þá þegar hefðu nokkrir einstaklingar leitað til hans og óskað eftir ráðgjöf um lögfræðilega álitamál og að hann ætti von á því að hafa nóg  um eins og hann orðar það. Nánar var fjallað um þetta í prentútgáfu Viðskiptablaðsins.

4. Annie Mist færir sig um set

Viðskiptablaðið greindi frá því á vef sínum um miðjan janúar sl., fyrst fjölmiðla, að Annie Mist Þórisdóttir, tvöfaldur heimsmeistari í Crossfit, hefði fært sig um set og gengið til liðs við Crossfit Reykjavík (CFR). Annie Mist hafði áður æft hjá Boot Camp og hafði ásamt Elvari Þór Karlssyni sett upp sitt eigið fyrirtæki, Crossfit BC, innan Boot Camp. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eignast Annie Mist hlut í CFR við flutninginn.

3. Búðarkona stal senunni

Viðskiptablaðið birt á vef sínum í byrjun febrúar myndir af árlegri viðurkenningarathöfn Félags kvenna í atvinnurekstri sem fram hafði farið í Ráðhúsi Reykjavíkur. Erla Wigelund, stofnandi og eigandi Verðlistans, sem hlaut þakkarviðurkenningu FKA stal senunni á afhendingunni, enda búðarkona af lífi og sál. Bernskudraumur Erlu Wigelund um að verða búðarkona rættist árið 1965 þegar hún opnaði verslunina Verðlistann við Laugalæk í Reykjavík, þar sem hún er enn til húsa.

2. Þrír yfirgefa Arion banka

Nú um miðjan desember greindi Viðskiptablaðið frá því að þrír starfsmenn af fjárfestingarbankasviði Arion banka hafa hætt í byrjun mánaðarins. Erlendur Davíðsson hjá fyrirtækjaráðgjöf bankans fór yfir til Júpíter rekstrarfélags og Þorbjörn Atli Sveinsson, sérfræðingur á greiningardeild og staðgengill forstöðumanns þar, fór til fjárfestingarbankans Straums. Þá hafði Bjarki Rafn Eiríksson, forstöðumaður markaðsviðskipta sömuleiðis hætt störfum.

1. Fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar nýr formaður ÍLS

Í byrjun maí sagði Viðskiptablaðið frá því að Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, hefði skipað Jóhann Ársælsson, fyrrverandi alþingismann, formann stjórnar Íbúðalánasjóðs í stað Katrínar Ólafsdóttur lektors sem óskað hafði lausnar vegna annarra starfa. Viðskiptablaðið hefur ítrekað fjallað um fjárhagsvandræði Íbúðalánasjóðs, og þó það tengist ekki fréttinni um skipun Jóhanns, má til gamans rifja upp að þann 22. nóvember sl. voru viðskipti með skuldabréf sjóðsins stöðvuð um tíma í Kauphöllinni vegna umfjöllunar blaðsins af málefnum sjóðsins.