Nú þegar árið er á enda er ekki úr vegi að rifja upp mest lesnu fréttirnar á vef Viðskiptablaðsins, vb.is, á árinu. Hér má finna stutta upprifjun um 6. til 10. mest lesnu fréttirnar.

10. Nafnbreytingin kostaði 125 milljónir

Tíunda mest lesna innlenda fréttin á vb.is á árinu var frétt um nafnabreytingu Advania, sem hét áður Skýrr, sem hafði kostað 125 milljónir króna. Þetta kom fram í andmælum félagsins sem send voru sýslumanninum í Reykjavík vegna lögbannskröfu félagsins Advance á nafnbreytingunni. Sýslumaður féllst ekki á kröfuna. Nánar var fjallað um málið í prentútgáfu Viðskiptablaðsins í byrjun febrúar.

9. Geiri í Goldfinger átti ekki fyrir skuldum

Níunda mest lesna fréttin birtist seint í nóvember og fjallaði um kröfur í dánarbú athafnamannsins Ásgeirs Þór Davíðssonar, sem þekktur var í lifanda lífi sem Geiri í Goldfinger. Ásgeir lést sem kunnugt er langt fyrir aldur fram í apríl, 62 ára að aldri. Kröfur í dánarbú hans námu um 200 milljónum króna og átti það fyrir skuldum. Landsbankinn og Drómi, þrotabú Frjálsa fjárfestingarbankans og SPRON, áttu megnið af kröfunum eða upp á milli 180 til 190 miljónir króna.

8. Ragga Gísla á í útgerð í Eyjum

Áttunda mest lesna fréttin birtist í ágúst og fjallaði um 14% eignarhlut söngkonunnar Ragnhildi Gísladóttur, kennda við Grýlurnar og Stuðmenn, í útgerðarfyrirtækinu  Bergur Huginn í Vestmannaeyjum. Mágur hennar, athafnamaðurinn og fjárfestirinn Magnús Kristinsson, átti á árum áður meirihluta í útgerðinni með bróður sínum Birki, manni Ragnhildar. Einkahlutafélag söngkonunnar var stofnað árið 2009 og hét þá RGísla ehf. en nafni félagsins hefur nú verið breytt í Cappa ehf. Nánar var fjallað um málið í samhengi við fréttir um umsvif Magnúsar og félagið Gnúp í prentútgáfu Viðskiptablaðsins.

7. SUS birtir laun fólksins sem birtir laun annarra

Sjöunda mest lesna fréttin á vb.is þetta árið var fréttatilkynning frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS), þar sem birtar eru tekjur helstu yfirmanna í fjármálaráðuneytinu, hjá Ríkisskattstjóra auk fjölmiðlanna DV og Frjálsar verslunar. Tilkynningin var birt í mótmælaskyni við að laun almennings væru birt á opinberum vettvangi líkt og tíðkast hefur í mörg ár, en SUS hefur í mörg ár mótmælt þessu. Í tilkynningunni kom fram að til þess að sýna stjórnendum skattayfirvalda (fjármálaráðuneytis og Ríkisskattstjóra) og þeirra fjölmiðla sem gefa út tekjublöð (DV og Frjálsrar verslunar) fram á hvers konar brot á friðhelgi einkalífs þetta er hafi Samband ungra sjálfstæðismanna ákveðið að birta laun þessa fólks, og með tilkynningunni fylgdi fyrrnefndur listi.

6. Enn eitt félag Magnúsar gjaldþrota

Sjötta mest lesna frétt ársins fjallaði um gjaldþrot eignarhaldsfélagsins Bergey ehf., sem var úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjaness 8. nóvember síðastliðinn. Félagið var í fullri eigu Smáeyjar ehf, félags útgerðarmannsins Magnúsar Kristinssonar í Vestmannaeyjum. Bergey var stofnað árið 2006 og átti meðal annars Toyota-umboðið á Íslandi, innflutningsfyrirtækið Gísla Jónsson ehf og Yamaha á Íslandi. Félagið var sömuleiðis í ábyrgð vegna annarra félaga í eigu Magnúsar. Þar á meðal voru Bílaleiga Flugleiða, M. Kristinsson, Sólning í Kópavogi, TMH á Íslandi, Motormax og Pizza Pizza (móðurfélag Dominos á Íslandi).