Nú þegar árið er á enda er ekki úr vegi að rifja upp mest lesnu fréttirnar á vef Viðskiptablaðsins, vb.is, á árinu. Hér má finna stutta upprifjun um fimm mest lesnu fréttirnar er í gærmorgun var birt upprifjun af fréttunum sem voru í 6. – 10. sæti.

5. Frægir gegn forsetanum

Það var eins og flestir muna mikill hiti í kringum forsetakosningarnar hér á landi í sumar. Í byrjun mars greindi vb.is frá því að fjölmargir landsþekktir aðilar hefðu gerst aðilar að hópi á samfélagsvefnum Facebook sem bar yfirskriftina „Betri valkost á Bessastaði“ sama dag og Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tilkynnti að hann hygðist gefa kost á sér áfram, fimmta kjörtímabilið í röð. „Við viljum betri valkost í næsta forsetakjöri og þessi hópur er stofnaður til að ræða það,“ sagði í lýsingunni á hópnum, eða grúbbunni eins og oftast er rætt um þegar talað er um facebook hópa. Sem fyrr segir höfðu margir þjóðþekktir einstaklingar skráð sig í hópinn, s.s. þingmenn og borgarfulltrúar, blaðamenn af Fréttablaðinu og DV, sjónvarpsmenn frá RÚV, nýr stjórnarformaður RÚV, leikarar, rithöfundar og margir fleiri. Þó kom fram í fréttinni að stjórnendur hópsins geta bætt fólki í hann án þess að það biðji sérstaklega um það og þess var getið að í hópnum kynnu að leynast einstaklingar sem ekki hefðu sjálfir skráð sig í hópinn. Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda og fulltrúi í stjórnlagaráði, var einn af stjórnendum hópsins (e. admin).

4. Sparnaðarráðgjafinn Ingólfur skuldar 100 milljónir

Fjórða mest lesna fréttin fjallaði um skuldir sparnaðarráðgjafans Ingólfs H. Ingólfssonar, sem hafði tekið rúmlega 30 milljóna króna lán í nafni einkahlutafélagsins Fjármál heimilanna árið 2007 til þess að stofna banka. Lánið var í erlendri mynt og stóð í lok árs 2010 eftir gengishrun í tæpum 90 milljónum króna. Skuldir félagsins námu 110 milljónum króna í lok árs 2010, samkvæmt síðasta birta ársreikningi. Ingólfur er þekktastur fyrir það að hafa kennt fólki á námskeiðum Fjármála heimilanna um nokkurra ára skeið hvernig það getur greitt niður skuldir, stýrt neyslu sinni og sparað til þess að geta notið þess að eyða peningum. Nánar var fjallað um málið í prentútgáfu Viðskiptablaðsins.

3. Góðkunningjar Egils

Þriðja mest lesna frétt ársins var úttekt Andrésar Magnússonar, blaðamanns og pistlahöfundar á Viðskiptablaðinu, um gesti í þættinum Silfri Egils, sem er einn helsti þjóðmálavettvangur landsins. Margir (þá helst hægri menn) hafa gagnrýnt þáttinn fyrir að vera einsleitur. Vegna þeirrar umræðu tók Andrés saman upplýsingar úr Fjölmiðlavakt CreditInfo um það hverjir hefðu komið oftast í þáttinn á þeim rúmu þremur árum sem liðin voru frá hruni, en fréttin var birt í lok janúar sl. — líkt og má glöggva sig á að ofan — er hins vegar kannski ekki nema von þó sumir klóri sér í höfðinu yfir því hverjir helst leiða opinbera umræðu á Íslandi.

2. Hlegið að Svavari Gestssyni á aðalfundi SA

Viðskiptablaðið sótti að sjálfsögðu aðalfund Samtaka atvinnulífsins (SA) um miðjan apríl og flutti fréttir af fundinum hér á vb.is. Þar varð til næst mest lesna frétt ársins á vb.is en á fundinum var sýnt myndband þar sem gjaldeyrishöftin voru sett í samhengi við bjórhöftin á sínum tíma. Sem kunnugt er var bjór ekki leyfður á Íslandi fyrr en þann 1. mars árið 1989. Í myndabandinu voru rifjuð upp ummæli Svavars Gestssonar, þá þingmanns Alþýðubandalagsins en síðan sendiherra og formann samninganefndar um Icesave samningana, þar sem hann mótmælti því harðlega að bjórbanninu yrði aflétt. Í einu myndbrotinu voru höfð eftir honum ummæli þar sem hann óskaði þess, alvarlegur á svip, að alþingismenn tæki ekki ákvörðun um að „hella áfengu öli yfir íslensku þjóðina“ – og í kjölfarið var mikið hlegið á aðalfundinum sem var þétt setinn í stóra fundarsalnum á Hilton Nordica. Allt var þetta þó sett í samhengi við það að Íslendingar væru s.s. ekki ókunnugir höftum af ýmsum toga.

1. Má bara kaupa einn bíl á ári að hámarki 10 milljónir kr.

Mest lesna frétt vb.is á árinu var hvorki löng né flókin – en þó merkileg að mörgu leyti og tengdist höftunum líkt og næsta mest lesna fréttin. Hér var um að ræða stutta netfrétt, sem skrifuð var um miðjan júní, og fjallaði um það að skv. nýju lagafrumvarpi um gjaldeyrismál mættu Íslendingar bara kaupa og flytja inn eitt farartæki erlendis frá á ári fyrir að hámarki 10 milljónir króna. Það var Steingrímur J. Sigfússon, þá efnahags- og viðskiptaráðherra, sem lagði fram frumvarpið en þarna var um að ræða breytingartillögu áður en frumvarpið yrði tekið til annarrar umræðu. Breytingartillagan kom til eftir að ráðherra hafði fengið tillögur frá Seðlabankanum.