Viðskiptablaðið fjallar reglulega og ítarlega um hvað er að gerast í heiminum í kringum okkar. Nú þegar árinu fer að ljúka er gott að líta yfir farinn veg og skoða mest lesnu erlendu fréttir Viðskiptablaðsins á árinu 2017. Hér eru fréttir sem lentu í sjötta til tíunda sæti listans:

10) Veðjar gegn Tesla

David Einhorn, einn þekktasti vogunarsjóðsstjóri á Wall Street, sagði markaðinn veruleikafirrtan og tók skortstöðu gegn Tesla. Hann sagði fjárfesta þyrsta í fyrirtæki, sem skili engum hagnaði, en segi flottar sögur.

9) Enginn saknar Outlook Express

Microsoft féll frá áformum um að fjarlægja myndvinsluforritið sívinsæla Paint úr nýjustu útgáfu stýrikerfisins Windows eftir fjölda mótmæla. Færri virtust þó kæra sig um tölvupóstkerfið Outlook Express enda datt það út úr nýjustu útgáfu stýrikerfisins.

8) Skilja ekki 930% hækkun

Forsvarsmenn danska fasteignafélagsins Victoria Properties botnuðu lítið í að hlutabréf í fyrirtækinu hefðu hækkað um 930% í upphafi ársins 2017 enda stæði félagið mjög illa fjárhagslega og eigið fé félagsins væri ekkert.

7) Tálsýnin á norrænum fasteignamarkaði

Fermetraverð var mun lægra í Reykjavík en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna samkvæmt samantekt Viðskiptablaðsins.

6) Vill 100% skatt á hina ríku

Jean-Luc Melenchon forsetaframbjóðandi í Frakklandi, vildi leggja 100% tekjuskatt á þá sem höfðu yfir 400 þúsund evrur í tekjur á ári.