Árið sem er að líða var viðburðaríkt, og umfjöllunarefni fjölmiðlarýnis Viðskiptablaðsins bæði mörg og misjöfn. Eftirfarandi eru fimm mest lesnu fjölmiðlapistlar ársins.

1. Bakarar tjá sig um trésmíðar

Fjölmiðlarýnir velti fyrir sér þeirri áleitnu spurningu af hverju fjölmiðlar telji það fréttnæmt þegar sumt fólk tjáir sig um málefni sem það hefur enga sérstaka þekkingu á. „Þannig var helsta frétt Ríkisútvarpsins síðastliðinn laugardag að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, teldi að efnahagsleg áhrif hertra sóttvarnaraðgerða yrðu jákvæð. Þetta hlýtur að hafa komið þeim tugþúsunda einstaklinga sem eiga hagsmuna að gæta í íslenskri ferðaþjónustu spánskt fyrir sjónir. Eins og flestir vita er Kári taugalæknir að mennt og ekki fylgdi fréttinni nein greining á skoðun hans á meintum jákvæðum efnahagslegum áhrifum af hertum sóttvarnaraðgerðum,“ sagði m.a. í pistli fjölmiðlarýnis.

2. Vaxtaverkir og valdarán

Vaxtahækkanir Íslandsbanka á fasteignalánum, mitt í miklum samdrætti þar sem atvinnuleysi er í hæstu hæðum, var umfjöllunarefni fjölmiðlarýnis. Einnig fór fjölmiðlarýnir yfir athyglisvert viðtal Sprengisands við hæstaréttarlögmanninn Ragnar Aðalsteinsson um málefni hinnar svokölluðu nýju stjórnarskrár.

3. Skítapleisið Boston og hagsmunir Amgen

„Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur á undanförnum árum afrekað að skrifa öllum Íslendingum - að Halla og Ladda undanskildum - harðorð bréf sem birst hafa í prentmiðlum,“ sagði í upphafsorðum fjölmiðlarýnis. Í pistlinum benti fjölmiðlarýnir jafnframt á eftirfarandi: „Í þessu samhengi má einnig velta fyrir sér af hverju íslenskir fjölmiðlar hafa svo sterka tilhneigingu til að persónugera áherslur Íslenskrar erfðagreiningar í sóttvarnamálum við Kára sjálfan. Kári er starfsmaður félagsins sem er í eigu Amgen sem er eitt stærsta líftæknifyrirtæki heims og er skráð á bandarískan hlutabréfamarkað. Eðli málsins samkvæmt hlýtur þetta félag telja sig hafa einhverja hagsmuni af því hvernig íslensk stjórnvöld haga sínum sóttvarnaaðgerðum og gera verður kröfu til fjölmiðla að þeir fjalli um málefni Íslenskrar erfðagreiningar í því ljósi.“

4. Fljúgandi þorskhaus

Í umræddum pistli benti fjölmiðlarýnir á að fólk geri kröfu til fjölmiðla um að þeir kanni trúverðugleika viðmælenda sinna. Því megi gera ráð fyrir að fjölmiðlar sniðgangi á endanum þá sem ítrekað eru staðnir að því að fara með staðlausa stafi í fréttum. Af einhverjum ástæðum virðist þetta þó ekki eiga við bandarísku kaupsýslukonuna Michelle Ballarin og útsendara hennar hér á landi. Pistillinn var skrifaður um það leyti sem 7 milljarða boði hennar í hlutafjárútboði Icelandair var hafnað.

5. Fréttastofa ASÍ segir fréttir

Fjölmiðlarýnir gagnrýndi framgöngu fréttastofu Ríkisútvarpsins í umræðunni um hækkun atvinnuleysisbóta og þótti honum umfjöllunin hafa verið hlutdræg og einstrengingsleg.