Árið sem er að líða var viðburðaríkt og umfjöllunarefni fjölmiðlarýnis Viðskiptablaðsins voru mörg og misjöfn en sóttvarnatakmarkanir voru þar áberandi, formaður Blaðamannafélagsins vakti athygli, sem og fyrrvendi forstjóri Íslandspósts og núverandi forstjóri Play.

Eftirfarandi eru þeir fjölmiðlapistlar sem voru í sætum 6 til 10 yfir þá mest lesnu á árinu.

6. Hekk­­klippur, hags­muna­á­­rekstrar og raf­­­magnaðir leið­­togar

Fjölmiðlarýnir veltir fyrir sér undarlegri fréttaskýringu Kjarnans, hverrar tilgangur virðist öðru fremur vera að gera blaðamenn á öðrum miðlum tortryggilega og ummælum formanns Blaðamannafélagsins, Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, sem taldi hlutafjáreign blaðamanna í almenningshlutafélögum brot á siðareglum, óháð virði þess sparnaðar sem lagður er í þau. Þá var vefútgáfa Morgunblaðsins gagnrýnd fyrir að miðla órökstuddum og fjarstæðukenndum skoðunum Þorvalds Gylfasonar, hagfræðiprófessors, gagnrýnilaust. Loks er tæpt á fréttaflutningi af útboðsmálum Reykjavíkurborgar.

7. Ójöfnuður á tímum fjórðu kóvídbylgju

Fjölmiðlar fjölluðu lítið um grein sem varpar ljósi á að starfsmenn í opinberri stjórnsýslu dragi vagninn þegar kemur að launahækkunum og fjölgun starfa, þrátt fyrir að vera alla jafna mjög uppteknir af fréttum um launaþróun og misskiptingu. Þá vakti athygli fjölmiðlarýnis viðtal við sóttvarnalækni um hert eftirlit með sóttkví ferðamanna fleiri spurningar en hún svaraði og ekki síður aðrar fréttir um þriðju bylgju og boðaða fjórðu bylgju. Loks var drepið á fréttaflutningi af myndarlegum gosbrunni í miðbæ Reykjavíkur.

8. Skipting kebabsins, erindi BÍ og tölfræðiklám

Fjölmiðlar og verkalýðshreyfingin sýndu lágu launahlutfalli vinsællar skyndibitakeðju fádæma fálæti í tráss við almennan áhuga á skattaundanskotum fyrirtækja. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins, fór fram úr sér með óhefðbundinni röksemdafærslu þegar hún gagnrýndi birtingu auglýsingar Samherja á vef Morgunblaðsins. Heimspekingur túlkaði orð seðlabankastjóra þannig að hann meinti ekki það sem hann sagði og Birgir Jónsson, forstjóri Play, sett fram nýjan mælikvarða á fjárstyrk fyrirtækja en með því var ekki loku fyrir það skotið að hann færi að hegða sér eins og venjulegur miðaldra maður og opni smasshamborgarastað.

9. Eignaskattur, misskilningur á Rotary-fundi og fjármálalæsi VR

Hverju skila skattatillögur einstakra flokka í reynd? Þeirri spurningu hafði ekki verið svarað enda enginn fjölmiðill haft fyrir því að spyrja. Undarlegum forsíðufréttum Fréttablaðsins fór fjölgandi og byggði ein þeirra á misskilningi sem kom upp á Rotary-klúbbi á höfuðborgarsvæðinu. Aðrir fjölmiðlar birtu fleiri fréttir birtar á misskilningi og rangtúlkunum eða öllu heldur takmörkuðu fjármálalæsi VR, þetta sá Fréttablaðið þó í gegnum.

10. Þvottagrind í Bryggjuhverfinu ohf.

Birgir Jónsson, fyrrverandi forstjóri Íslandspósts, gagnrýndi stjórn Íslandspóst harðlega en lýsingar hans á stjórnarháttum urðu fjölmiðlum ekki tilefni til að ganga á eftir svörum frá stjórnarmönnum. Fjölmiðlaumfjöllun um fleiri opinber hlutafélög vakti jafnframt athygli auk þess sem fjölmiðlamenn börðust í bökkum við að finna nýja fréttafleti á jarðskjálftahrinunni. Forsíðufrétt Fréttablaðsins vakti athygli en þar fékk mikið pláss þrætumál, sem augu þjóðarinnar beindust að, milli félaganna Þúfubjargs og Lyfjablóms.