Árið sem er að líða var viðburðaríkt, og umfjöllunarefni fjölmiðlarýnis Viðskiptablaðsins bæði mörg og misjöfn. Eftirfarandi eru þeir fjölmiðlapistlar sem voru í sætum 6-10 yfir þá mest lesnu á árinu.

6. Að þekkja verð á öllum hlutum en virði einskis

Í pistlinum ræðir fjölmiðlarýnir um skipbrot og hæpnar efnahagsfosendur sóttvarnarstefnunnar ásamt útgjaldastefnu stjórnarandstöðu út í hið óendanlega.

7. Arðgreiðslur og upplýsingaóreiða

Fjölmiðlarýnir gagnrýndi tilmæli Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra, og Seðlabankans til viðskiptabankanna að þeir haldi að sér höndum þegar kemur að arðgreiðslum á komandi ári. „Þarna segir seðlabankastjóri efnislega að gjaldeyrismarkaðurinn sé svo veikburða að gengi krónunnar kynni að veikjast við það eitt að eigendur Arion myndu ákveða að greiða út arð á næsta ársfundi. Það hlýtur að vekja athygli þeirra útlendinga sem hafa fjárfest hér á landi að seðlabankastjórinn segir að eðlileg arðgreiðsla skráðs fyrirtækis gæti grafið undan gengi krónunnar og það valdi honum hugarangri,“ sagði m.a. í pistli fjölmiðlarýnis.

8. Vaxtaverkir og endursagnir

Í þessum pistli skrifaði fjölmiðlarýnir um óvænt ummæli Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra, um verðlagningu á brúarláni sem Arion banki veitti Icelandair Hotels. Þann sama dag setti Ásgeir svo Sundabraut á dagskrá, öllum að óvörum. Þá gagnrýndi fjölmiðlarýnir endursögn Ríkisútvarpsins á frétt Morgunblaðsins, án þess að geta heimilda.

9. Skapandi bókhald Ríkisútvarpsins

„Uppljóstranir um bókhaldsbrellur hjá ríkisstofnun til að komast undan skyldum, sem lögbundinn þjónustusamningur leggur á herðar henni, hefðu einhvern tíma þótt fréttnæmar. Ætla hefði mátt að hinn fjölmenni her rannsóknarblaðamanna á ríkismiðlinum hefði gert slíkum fréttum góð skil og ekki veigrað sér að velta öllum steinum til að komast ofan í kjöl málsins,“ sagði m.a. í pistli fjölmiðlarýnis sem fjallaði um stórfróðlega 104 blaðsíðna skýrslu Fjölmiðlanefndar um starfsemi Ríkisútvarpsins.

10. Að drepa veiruna úr leiðindum

Sóttvarnaraðgerðir voru mikið til umræðu á þessu ári sem helst verður minnst sem ársins þar sem kórónuveirufaraldurinn ógnaði heilsu alheimsbúa og setti hagkerfi heimsins á hliðina. Í pistlinum gagnrýnir fjölmiðlarýnir að fjölmiðlafólk hafi ekki gengið fastar eftir því að fá svör frá ráðamönnum um þær afleiðingar sem aðgerðirnar gætu haft í för með sér, m.a. efnahagslegar.