*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Frjáls verslun 29. desember 2020 17:23

Mest lesnu fréttir Frjálsrar verslunar 1-5

Fréttir um umsvifamikla erlenda fjárfesta og efnahagsmál eru áberandi á lista yfir mest lesnu fréttir Frjálsrar verslunar á árinu.

Ritstjórn
Vincent Tan og Jim Ratcliffe eru á hinum vinsæla lista FV yfir erlenda fjárfesta í íslensku atvinnulífi.
epa

Fréttir um umsvifamikla erlenda fjárfesta í íslensku atvinnulífi og efnahagsmál almennt eru áberandi á lista yfir mest lesnu fréttir Frjálsrar verslunar á því viðburðaríka ári sem er að líða, þar sem kreppt hefur að fyrir tilstilli kórónuveirufaraldursins.

1. Erlendir auðmenn á Íslandi

Mest lesna frétt Frjálsrar verslunar árið 2020 fjallaði um þrjátíu af umsvifamestu erlendu auðmönnunum sem fjárfest hafa í íslensku viðskiptalífi. Meðal fjárfesta á listanum eru fjárfestar tengdir byggingargeiranum, ferðaþjónustu, fiskeldi, verslun, sprotafyrirtækjum, fjármálageiranum sem og umsvifamiklir landeigendur.

2. Auðmenn: Ungu laxeldiserfingjarnir

Frétt Frjálsrar verslunar um unga Norðmenn sem eru á lista yfir 30 af umsvifamestu erlendu auðmönnunum sem komið hafa að íslensku atvinnulífi var mikið lesin. Um er að ræða ríkasti karl og ríkustu konur Noregs, sem eiga það sameiginlegt að vera á þrítugsaldri og að hafa erft viðskiptaveldi fjölskyldunnar, þar sem meðal annars má finna stóran hlut í íslensku fiskeldi.

3. Skattaparadísin stækkar út í sjó

Í frétt Frjálsrar verslunar var fjallað um sögu smáríkisins Mónakó, næstminnsta ríkis heims, sem gerði afnumdi tekjuskatt algerlega árið 1869, og dró þannig að, og jafnvel skapaði, milljarðamæringa í stórum stíl. Um þriðjungur íbúa furstadæmisins telur auð sinn í milljónum Bandaríkjadala. Skattaparadísin er aðeins um 2,2 ferkílómetrar  að flatarmáli en bætir úr þrengslunum með því að auka við land sitt með uppfyllingum, sem nú nema um fimmtungi flatarmáls landsins og stendur til að bæta enn frekar við á næstu árum.

4. Vill virkja einkaframtakið

Rætt var við Sigríði Margréti Oddsdóttur í tímariti Frjálsrar verslunar, hvar hún sagði meðal annars að mikilvægt væri að virkja einkaframtakið til að bregðast við ósjálfbærri þróun heilbrigðiskostnaðar hér á landi. Hún óttast hinsvegar að sumir stjórnmálamenn vilji heldur ríkisvæða rekstur lyfjaverslana og apóteka.

5. Metnaðarfull útrás sem mistókst

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, var tekinn tali í tímariti Frjálsrar verslunar og ræddi hann þar meðal annars um rekstur Arion banka á síðasta ári. Hann segir útlánatap og tíu milljarða króna tap Valitor hafa litað rekstrarár bankans. Valitor, dótturfélag bankans er í söluferli en bókfært virði kortafyrirtækisins lækkaði úr 16 milljörðum í 6,5 milljarða króna á síðasta ári. Hann segir Valitor hafa farið í metnaðarfulla útrás á sínum tíma, en hún hafi mistekist.

Hér má sjá framhald listans frá 6. til 10. sætis.