Árið sem er að líða var viðburðaríkt, og umfjöllunarefni Viðskiptablaðsins bæði mörg og misjöfn. Hér er listi yfir þær fréttir sem prýða 6.-10. sætið yfir mest lesnu innlendu fréttir ársins.

6. Hard Rock tapað 937 milljónum frá opnun

HRC Ísland, rekstraraðili veitingastaðarins Hard Rock á Íslandi, tapaði 101,6 milljónum króna á síðasta ári og hefur tapað rúmum 937 milljónum á síðustu fjórum árum, samkvæmt ársreikningum. Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri Hard Rock á Íslandi, að mikil aðsókn hafi verið í upphafi árs en Covid-19 faraldurinn hafi haft mikil áhrif, sérstaklega fyrir stað að þessari stærð.

7. Eigendur Icelandair þyrftu að taka skell

Málefni Icelandair voru mikið á milli tannanna á fólki á árinu sem nú er senn á enda. Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið félagið grátt og í ofangreindri frétt frá því í mars var greint frá því að íslensk stjórnvöld myndu vart veita Icelandair ríkisstuðning nema hluthafar og lánveitendur félagsins legðu eitthvað til eða sættu sig við tjón. Sú varð að lokum raunin, en líkt og þekkt er orðið kláraði félagið hlutafjárútboð í september.

8. Acer í hart við þrotabú Tölvuteks

Í umræddu máli var deilt um hvort samningsákvæði Acer við Tölvutek stæðist íslensk lög. Samningur alþjóðlega raftækjarisans Acer við Tölvutek um smásölu þess síðarnefnda á vörum þess fyrrnefnda fól í sér ákvæði í samræmi við þýsk lög um einskonar veð Acer í vörunum þar til þær seldust, en Landsbankinn var á sama tíma með allsherjarveð í vörubirgðum Tölvuteks fyrir sínum lánum. Líkt og fyrr segir var deilt um hvort ákvæði Acer standist íslensk lög.

9. Úr bílskúr í rúmlega 3 milljarða veltu

Pétur Þór Halldórsson, forstjóri, stofnandi og einn eigenda S4S, sem rekur fimmtán verslanir og þrjár netverslanir, auk heildsölu, sagði frá sögu fyrirtækisins í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið. Í upphafi gekk Pétur milli skóbúða með tvær fullar íþróttatöskur af skóm, kynnti vöruúrvalið og reyndi að selja skó. Á þessum tíma var lagerinn ekki stór, hann komst allur fyrir í bílskúr sem Pétur leigði í Fossvoginum. Í dag veltir fyrirtækið ríflega 3 milljörðum króna á ársgrundvelli.

10. Icelandair auglýsir eftir starfsfólki

Fréttin sem lokar listanum fjallaði um að Icelandair leitaði að starfsfólki til að sinna ýmsum þjónustutengdum störfum á jörðu niðri á Ísafirði. Mun meira var um uppsagnir en ráðningar hjá flugfélaginu á þessu ári vegna heimsfaraldursins.