Viðskiptablaðið hefur birt marga pistla á árinu sem eru allir mjög ólíkir. Nú þegar styttist í að árið 2013 verði kvatt er ekki úr vegi að rifja upp mest lesnu pistla á árinu.

10. Útlendingur lýgur sig í hel

"Á Langjökli dó maður og þó hann sé alla leið frá Kína — hver sem skýringin á slysinu kann að reynast — á hann það ekki skilið að íslenskir fjölmiðlar kasti yfir hann rekunum með kveðjunni „Honum var nær, lygaranum.“ Það voru aðrir sem ekki fóru með rétt mál.

9. Pungar og prófkjör

Í þessum pistli er farið yfir þær algengu afsakanir sem heyrast þegar konum gengur illa í prófkjörum. Mikil umræða var um prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík þegar þrír karlmenn enduðu í þremur efstu sætunum. Það voru ekki allir ánægðir.

8. Ég var ung. Mig vantaði pening.

"Það er ekkert grín að eiga ekki pening og peningaáhyggjur hafa þann sniðuga eiginleika að geta málað allt manns daglega líf angistarlitum. En ég var bókstaflega þessi nakta kona (að borða samloku í Listaháskólanum) sem neyðin kenndi að spinna og er þakklát fyrir að hafa verið í þeim aðstæðum að kanna störf sem annars hefðu að öllum líkindum farið framhjá mér."

7. Jóladólgar

Hér er fjallað um fólkið sem er búið að pynta sig og svelta mánuðum saman til að komast í kjólinn fyrir jólinn, í þeim eina tilgangi að mæta í dressinu í jólaboð og halda fyrirlestur um hversu hræðilega mikið salt sé nú í hangikjötinu. Þetta eru jóladólgarnir.

6. Loksins út úr skápnum!

Syngjandi saumaklúbbar og dansandi eiginmenn skemmtu sér vel á Sögu Eurovision í Hörpu í vor. Hér er fjallað um tónleikana sem pistlahöfundi fannst mjög góð skemmtun.

5. Um "hinar" stúlkurnar

"Málið er samt að „slæmar“ stelpur eru ekkert slæmar. Þær eru bara „hinar“ stelpurnar. Töffararnir. Þær nenna ekki að fitta inn í fullkominn ramma bleikra kokkteila, tannhvíttaðra brosa og sykursæts hláturs sem einhver ákvað einhvern tímann að væri kvenlegur. Þær eru sigri hrósandi hetjur ljóðskáldanna og músur listamannanna. Skál, fyrir „hinum“ stúlkunum."

4. Jæja pungar

Óhætt er að segja að karlmenn fá að heyra það í þessum pistli. Heiminum er lýst ef staðan væri þannig að karlar þyrftu einhvern tímann að gera eitt einasta handtak í þessu lífi. "Enski boltinn væri sýndur eftir miðnætti á mánudögum því þeir hefðu ekki tíma til að horfa um helgar. Enda þyrfti að keyra kerlingarnar á barinn í eftirmiðdagsdrykkjuna. Þær geta auðvitað ekki látið sjá sig í leigubíl um miðjan dag, eitthvað alkalegt við það. Og strætó? Gleymum því maður sæll."

3. Ég hata þig Meistaramánuður

"Vitiði hvað kom fyrir mig um daginn? Viljiði vita það? Ég var send í fitumælingu með vinnustaðnum. Og útkoman? Fituprósentan er vel yfir 30 prósent og ég er með nær enga vöðva, samkvæmt mælingartækjunum er ég á fimmtugsaldri í lífaldri, með smjör í æðum, er lág í vökva og á, svona miðað við útkomuna í heild, líklega 3 mánuði eftir ólifaða."

2. Hjálpum þeim, í alvöru talað

Það voru ekki allir sammála hugmyndum ríkisstjórnarinnar um að draga úr framlögum til þróunaraðstoðar. Pistlahöfundur segir það vera lygi stjórnvalda að velja þurfi á milli þess að eiga gott heilbriðiskerfi hér á landi eða að gefa pening til þróunarlanda svo sómi sé að.

1. Bara eitt hérna

Mest lesni pistillinn í ár er um Kardashian fjölskylduna og þá ósanngjörnu gagnrýni sem fjölskyldan hefur þurft að þola. Það voru greinilega fleiri sammála pistlahöfundi.

"Kim mín er enginn hálfviti. Kona sem er búin að koma því þannig fyrir að hún fær 10 þúsund dali fyrir hvert einasta twitter skilaboð er enginn hálfviti. Og kona sem fær tugi milljóna manna um allan heim til að horfa á þátt þar sem hún er að ákveða í hvaða skóm hún eigi að vera í er enginn hálfviti. Og kona sem heldur haus á meðan heimurinn hlær og glottir eins og hýena er enginn hálfviti. Kim er enginn hálfviti. Heimurinn er það."