Nú þegar árið er á enda er ekki úr vegi að rifja upp mest lesnu pistlana á vef Viðskiptablaðsins, vb.is, á árinu. Hér má finna stutta upprifjun um 10 mest lesnu pistlana.

10. Herferðin: Að halda kúlinu

Þeim hefur örugglega ekki leiðst markaðsstarfsmönnum hjá Wow air þegar þeir pimpuðu upp appelsínugula Iceland Express fuglinn og klæddu hann í flugmannsleðurjakka merktum Wow air og settu á hann svöl flugmannssólgleraugu.Allt í einu var annars pirrandi nöldurseggurinn sem appelsínuguli fuglinn var orðinn kúl. Það er líka það sem Wow air gerir sig út fyrir, að vera kúl og skemmtilegt flugfélag. Og það má segja Wow mönnum til hróss að þeim hefur tekist að markaðssetja sig þannig. Lesa meira.

9. Varnir skuldara

Óvissa ríkir hjá okkur skuldurum um framvindu greiðslubyrði, til dæmis í kringum afléttingu gjaldeyrishafta. Ef varnir á verðbólgu og vexti stæðu til boða fyrir skuldara gætum við notfært okkur þær til að minnka óvissu varðandi greiðslur af skuldum í framtíðinni. Þannig gætu skuldarar vitað með meiri nákvæmni hver greiðslubyrði verður. Lesa meira.

8. Stelpur geta betur

Það er ekki hægt að segja annað en að flestir virðist vera á tánum í jafnréttisumræðunni og vilja að börnin sín, stelpur og strákar, fái sömu tækifæri í lífinu. Ungar stelpur hafa eldri stelpur sem fyrirmyndir og það eru svo sannarlega til margar góðar fyrirmyndir. Fimleikastelpurnar okkar, fótboltastelpurnar, crossfit-stelpurnar, hæfileikaríkar stelpur í tónlist, þær sem sækja sér menntun og svona mætti lengi telja. Þegar fjölskyldan situr fyrir framan sjónvarpið má svo oft sjá þessar fyrirmyndir sýna listir sínar. En þegar sest er saman fyrir framan sjónvarpið og horft á eldklára krakka svara spurningum er þó annað uppi á teningnum. Lesa meira.

7. Yfirlæti og áhrifaleysi Þorsteins

Það er stundum ágætt að minna sig á að hinir svokölluðu álitsgjafar eru ekki merkilegri en annað fólk, þeir eru ekki endilega gáfaðri og þeir hafa ekki endilega meiri eða betri skilning á málefnum líðandi stundar en hinn almenni maður. Þvert á móti eiga fjölmiðlamenn og álitsgjafar það til að festast í eigin hringiðu og missa um leið af því hvað fólkið í landinu er að hugsa. Eitt besta dæmið um þessa einangrun eru vikulegir pistlar Þorsteins Pálssonar, fv. ráðherra og fv. ritstjóra Fréttablaðsins. Pistlar Þorsteins eru skrifaðir af miklu yfirlæti og heiti pistlanna, Af kögunarhóli, gefa það eitt til kynna að stiginn upp hólinn virðist nokkuð hár og þangað er almenningi helst ekki boðið. Lesa meira.

6. Heimaleikfimi er heilsubót

Nú eru flest allir búnir að sjá auglýsingar líkamsræktarstöðvanna þar sem þátttakendum er lofað að komast í kjólinn fyrir jólin. Já, eða sjá tólin fyrir jólin sem sumum þykir eftirsóknarvert. Sumir vilja taka vel á því fyrir jólin enda er gott að vera raunsær á það hversu mikið magn af dásamlegum jólamat við innbyrðum.Aðrir stressast upp fyrir jólin og telja sig ekki hafa tíma fyrir líkamsrækt. Lesa meira.

5. Börn og óþekkir eiginmenn með Wow

Ég fór um daginn í eina af síðustu ferðunum sem farin var á vegum Iceland Express. Strax eftir kaup Wow air á Iceland Express fengu viðskiptavinir tilkynningu um mögulegar breytingar sem gætu orðið á ferðaplönum einhverra. Fyrir heimferðina voru Íslendingarnir mættir óvenju snemma í innritun enda allur ferðapeningurinn farinn í dýran jólabjór og því vissara að drífa sig heim. Lesa meira.

4. Skyldi hann kjósa Sjálfstæðisflokkinn?

Will McAvoy er skeleggur, sniðugur, óeðlilega fljótur til svars og fyndinn. Hann er því eðli málsins samkvæmt ekki raunverulegur heldur fréttaþulur í sjónvarpsþáttunum The Newsroom. Fyrir utan rómantíkina og dramatíkina (sem er víst nauðsynleg til að gefa þáttum sem þessum aðdráttarafl) þá er ansi hressandi mynd dregin upp af bandarískum fjölmiðlum í þáttunum. Þar standa allir í hinu daglega streði við að vera fyrstir með fréttirnar, sýna nýjustu myndirnar og dæla út upplýsingum um helstu viðburði líðandi stundar. Will McAvoy og félagar láta það hins vegar ekki nægja. Lesa meira.

3. Óttinn við tollinn

Eitt af því sem Íslendingar eru hvað hræddastir við að koma heim aftur eftir að hafa verið í útlöndum er að fara „í gegnum tollinn“ eins og það er kallað. Það er ekki af því að meginþorri Íslendinga sé að flytja inn vopn og eiturlyf, heldur hefur meginþorrinn gerst sekur við reglur stjórnvalda um að hafa keypt sér allt of mikið í útlöndum. Lesa meira.

2. Microsoft í vondum málum

Það er ekki langt síðan Microsoft var nánast upphaf og endir alls í tölvuheimum. Ef það var ekki límmiði frá Microsoft á kassanum, þá litu kerfisstjórar heimsins ekki við honum. Nú er öldin hins vegar önnur og þó að Microsoft hafi ennþá verulegt forskot í atvinnulífinu, þá kann það að vera að breytast. Lesa meira.

1. Fá ekki borgað fyrir að vera bestar

Börn byrja flest í íþróttum af áhuga og ánægju. Margir hætta á unglingsaldri en sumir, oftast þeir sem skara fram úr, endast fram á fullorðinsárin. Í boltaíþróttum tíðkast að þessi hópur leikmanna semji við félagslið sín sem greiða þeim laun, oft ekki háar fjárhæðir, fyrir að stunda íþróttina og keppa fyrir hönd liðsins. Utan boltaíþrótta er raunin oft önnur og í fimleikum er fyrirkomulagið til dæmis þveröfugt. Lesa meira.