Fyrirtækin Mest ehf. og Súperbygg ehf. hafa sameinast undir merkjum Mest að því er kemur fram í tilkynningu frá Mest. Mun öll starfsemi Súperbygg fara fram undir merkjum Mest frá og með mánudeginum 9. október.

Með sameiningunni verður til eitt öflugasta fyrirtæki landsins með vörur og þjónustu fyrir verktaka og fagaðila í byggingariðnaði og verklegum framkvæmdum og almennt framkvæmdafólk. Stærra og öflugra Mest verður með um 6 milljarða króna ársveltu og um 250 starfsmenn. Traust og persónuleg þjónusta verður eftir sem áður aðalsmerki Mest þar sem áhersla er lögð á einföld og þægileg samskipti.

Þórður Birgir Bogason, forstjóri Mest, segir í tilkynningunni að með sameiningunni náist fram hagræðing í rekstri og gríðarleg aukning í vöruúrvali sem efla muni þjónustu við viðskiptavini félagsins til muna. ?Sameinað félag er sterkasta alhliða félag á íslenskum byggingavörumarkaði en Mest býður nú sérsniðnar lausnir fyrir fagaðila, fyrirtæki og einstaklinga, allt frá fyrstu skóflustungu til fullkláraðs húss og lóðar.?

Pétur Hans Pétursson, áður framkvæmdastjóri Súperbygg og nú framkvæmdastjóri byggingasviðs Mest, segir að með sameiningunni verði til geysiöflugt fyrirtæki á markaði fyrir vörur og þjónustu tengda byggingariðnaði og verklegum framkvæmdum. ?Neytendur hafa nú raunhæfan valkost í þessum efnum sem koma mun þeim til góða í hagstæðari kjörum.?

Súperbygg á rætur að rekja til danska byggingavörufyrirtækisins Dansk Trælast A/S sem hefur sérhæft sig í sölu á byggingavörum til fagaðila á Norðurlöndum í meira en 100 ár. Árið 1991 stofnaði fyrirtækið starfsstöð á Íslandi undir merkjum Superbyg en 2003 var starfsemin seld íslenskum starfsmönnum og nafninu breytt í Súperbygg. Í nóvember 2004 opnaði Súperbygg byggingavöruverslun sem bauð vörur á lágu verði fyrir iðnaðarmenn og framkvæmdafólk og lagði áherslu á heildarlausnir segir í tilkynningu félagsins.

Eftir sameininguna rekur Mest nú verslanir á eftirtöldum stöðum: Bæjarflöt í Grafarvogi, á Malarhöfða í Reykjavík og Bæjarhrauni í Hafnarfirði þar sem m.a. er selt hráefni til innréttingaiðnaðarins. Unnið er að byggingu nýrrar 3.600 fm byggingavöruverslunar Mest í Norðlingaholti sem ráðgert er að opna í vetur. Ennfremur er fyrirhugað að reisa 2.000 fermetra verslunar- og þjónustuhúsnæði á Malarhöfða. Mest rekur einnig söluskrifstofur á Hringhellu í Hafnarfirði, á Reyðarfirði og Selfossi. Stefnt er að opnun fleiri útsölustaða á landsbyggðinni á næstu mánuðum. Mest rekur fjórar steypustöðvar, eina helluverksmiðju og eina einingaverksmiðju auk þróunar-, gæða- og rannsóknadeildar. Auk almennra byggingavara selur Mest steypu-, járn-, múr- og timburvörur, glugga, stálgrindarhús og bílskúrshurðir, innveggi og kerfisloft, forsteyptar einingar og steypumót, rör og brunna, festingar og verkfæri, hellur og garðeiningar, forbeygt styrktarjárn auk ýmissa vinnuvéla, byggingakrana og tækja til bygginga- og lóðaframkvæmda. Aðalstöðvar Mest eru áfram á Malarhöfða 10.