Frekar dýr en eldri fólksbíll hefur fengið á sig þann alræmda stimpil að vera sá bíll sem mest er sektaður í Bandaríkjunum. Lexus ES 300 hefur reynst sá bíll hvers ökumenn hafa mest verið sektaðir í Bandaríkjunum á milli janúar árið 2014 og febrúar á þessu ári.

Hefur þriðjungur ökumanna á þessari gerð Lexus bíla verið sektaður á tímabilinu, eða 33%, en sú bílategund hvers ökumenn hafa minnst verið sektaðir eru ökumenn Buick Encore, en einungis 3% ökumanna þeirrar bílategundar hafa verið sektaðir.

Bíllinn sem framleiddur var af Toyota fyrirtækinu á árunum 1992 til 2003 þótti á sínum tíma tiltölulega ódýr miðað við lúxusfólksbíl sem jafnframt var talin traustur og ódýrt að viðhalda.

Sá bíll sem næst mest var sektaður á tímabilinu var Nissan 350Z, tveggja sæta sportbíll sem seldur var til ársins 2009. Sportbíll var einnig í þriðja sæti, Dodge Charger, en hvort tveggja passar vel við fyrirframgefnar hugmyndir sérfræðinga heimasíðunnar Insurance.com sem safnaði gögnunum.

Það sem kom þeim á óvart var samt að þessi eldri gerð fólksbíla skyldi vera í efsta sætinu, en lúxusfólksbílar eru venjulega taldir höfða helst til eldri bílstjóra sem almennt eru álitnir varkárari í umferðinni. Telja þeir mögulegt að bílategundin sé nú í miklum mæli komin í hendur yngri bílstjóra, bæði eftirlátnum börnum af foreldrum sínum sem séu komnir á nýrri bíla eða keyptir upp á endursölumarkaði af yngri ökumönnum.