Sala áfengis í febrúar var nánast sú sama og á sama tíma í fyrra. Það sem af er ári þ.e. janúar og febrúar hefur salan hinsvegar dregist saman í heildina um 1,1% á milli ára.

Þetta kemur fram á vef Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR).

Mestur er samdrátturinn í blönduðu víni það sem af er ári, eða 8,3% á milli ára. Þá hefur sala á lagerbjór dregist saman um 1,4% á milli ára en það sem af er ári hafa 1.788 þúsund lítrar selst af bjór. Loks hefur salan á ókrydduðu brennivíni dregist saman um 1,3% og sala á rauðvíni um 0,7%. Aðeins hefur orðið aukning í sölu á hvítvini á milli ára, eða 0,5%.

Þá kemur fram á vef ÁTVR að tæplega 39 þúsund lítrar hafi selst af þorrabjór sem er 12% aukning á milli ára. Sölu á þorrabjór lauk í febrúar. Líkt og í fyrra var mest selt af Þorrakalda.