Þegar svigrúm til launahækkana er skoðað út frá starfsgreinum ber þjónusta sig, samkvæmt könnun MMR sem unnin var fyrir Viðskiptablaðið. Greint var frá niðurstöðum í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins og má lesa um hér .Um 34%  stjórnenda í þjónustugreinum telja 4-6% svigrúm til launahækkana, 17% telja 7-10% svigrúm til launahækkana og 4% telja svigrúmið meira en 11%.

Útgerð, vinnsla og matvælaframleiðsla kemur þar næst á eftir en 31% stjórnenda í þeim geira telur 1-3% svigrúm til launahækkana. Athygli vekur að um 10% stjórnenda fyrirtækja á neytendamarkaði telja svigrúmið til launahækkana 11% eða meira þegar aðeins tæp 3% stjórnenda á fyrirtækjamarkaði telur sig hafa svigrúm til 11% eða meiri launahækkana.

Fjármálastjórar telja svigrúmið mest

Þegar staða svarenda er skoðuð kemur mjög á óvart að fjármálastjórar telja mesta svigrúmið til launahækkana en aðeins 21% þeirra telja ekkert svigrúm til launahækkana meðan 38% forstjóra telja ekkert svigrúm. 29% fjármálastjóra telja svigrúm til launahækkunar á bilinu 1-3% og 31% fjármálastjóra telja svigrúmið til launahækkana á bilinu 4-6%. 16% þeirra telja svigrúmið vera 7-10%.

Aldur stjórnenda virðist líka hafa áhrif á niðurstöðurnar því tæp 32% þeirra sem eru 41 árs og eldri telja ekkert svigrúm til hækkana en 23% 40 ára og yngri stjórnenda telja ekkert svigrúm til hækkana. Ítarleg niðurstaða í stjórnendakönnun Viðskiptablaðsins og MMR verður birt í sérblaði, sem mun fylgja Viðskiptablaðinu nú í apríl.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.