Í nýrri könnun Capacent Gallup mældist traust til fjölmiðla 69%, til stjórnvalda 67% og til viðskiptalífsins 60%.

Í sambærilegri könnun Capacent Gallup í fyrra reyndust flestir treysta ríkisstjórninni/stjórnvöldum betur en viðskiptalífinu og fjölmiðlum.

Þessar niðurstöður verða kynntar á morgunverðarfundi sem haldinn verður á vegum AP almannatengsla, Viðskiptaráðs og Capacent Gallup á Hilton Reykjavík Nordica á morgun.

Á fundinum mun Jere Sullivan, aðstoðarforstjóri almannatengslafyrirtækisins Edelman í Evrópu, einnig kynna niðurstöður úr níundu árlegu könnun Edelman meðal skilgreindra áhrifavalda í 18 löndum og fjalla um hvernig fyrirtæki, þjóðir og stofnanir geti nýtt niðurstöðurnar við að byggja upp traust sitt og trúverðugleika.

Í könnunum Edelman er mælt traust til fyrirtækja, stjórnvalda, fjölmiðla og félagasamtaka auk þess sem traust og trúverðugleiki boðleiða eru mæld.

Ísland sker sig á vissan hátt úr varðandi traust til fjölmiðla þó svo að könnun Edelman endurspegli meira traust til fjölmiðla en áður.

Í sambærilegri könnun Edelman, sem kynnt var á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos í Sviss fyrr á árinu, kom í ljós að í 14 af 18 löndum sem könnunin náði til nýtur viðskiptalífið meira trausts en stjórnvöld.

Í sömu könnun Edelman árið á undan reyndust áhrifavaldar bera mest traust til viðskiptalífsins en á eftir komu fjölmiðlar og stjórnvöld. Könnun Edelman hefur jafnan vakið athygli meðal helstu viðskiptafjölmiðla heims enda þykir hún góður leiðarvísir fyrir stjórnendur.

Í könnun Capacent Gallup kemur einnig fram að 61% íslenskra áhrifavalda telja að umfjöllun um íslenskt efnahagslíf í erlendum fjölmiðlum undanfarin misseri hafi skaðað ímynd Íslands. Þá telja aðspurðir einnig að minnst traust sé borið til íslenskra fyrirtækja í Danmörku og Bandaríkjunum en að þau njóti mests trausts í Frakklandi og Þýskalandi.

Á morgunverðarfundinum flytja einnig erindi þau Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, Áslaug Pálsdóttir, framkvæmdastjóri AP almannatengsla, og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, rannsóknastjóri Capacent Gallup. Í lok fundarins verða pallborðsumræður.

Nánar um morgunverðarfundinn á morgun.