Að minnsta kosti 151 fyrirtæki í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð fór í greiðsluþrot á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Þar af urðu að minnsta kosti 78 fyrirtæki í geiranum gjaldþrota. Þetta kemur fram í upplýsingum sem fyrirtækið Creditinfo hefur tekið saman um greiðsluþrot og gjaldþrot fyrirtækja í ýmsum greinum atvinnulífsins.

Alls fóru að minnsta kosti 580 fyrirtæki í greiðsluþrot á fyrstu fjórum mánuðum ársins og urðu þar af að minnsta kosti 319 gjaldþrota. Creditinfo setur fyrirvara við þessar tölur vegna þess að enn eiga eftir að berast upplýsingar um mál fyrir mars og apríl. Tölurnar gætu því verið hærri.

Með greiðsluþroti er m.a. átt við að félagið hafi farið í greiðslustöðvun, það hafi ekki sinnt lögmætri fjárnámsboðun, eða að árangurslaust fjárnám hafi verið gert í félagið, svo dæmi séu nefnd.

Alls 4.281 fyrirtæki er skráð í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, samkvæmt upplýsingum frá Greditinfo, en ekki liggur þó ljóst fyrir hve mörg þessara fyrirtækja eru með starfsemi. Líklegt er að inni í þessum tölum séu fyrirtæki sem séu óvirk, þ.e. hafi verið skráð á sínum tíma en aldrei hafið starfsemi.

Sama á við um heildarfjölda fyrirtækja. Alls 31.249 fyrirtæki eru skráð, samkvæmt upplýsingum Creditinfo, en stór hluti er ekki með starfsemi, jafnvel allt að helmingur. Því er erfitt að átta sig á hlutfallslegum fjölda þeirra fyrirtækja sem hafa farið í greiðsluþrot eða gjaldþrot.

Mest um gjaldþrot í byggingargeiranum

Þegar rýnt er í tölurnar frá Credinfo má sjá að flest greiðsluþrotin og gjaldþrotin eru í byggingargeiranum. Einnig má sjá að að minnsta kosti 52 fyrirtæki í fasteignaviðskiptum hafa farið í greiðsluþrot á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Þar af hafa 27 fyrirtæki orðið gjaldþrota. Í fjármála- og vátryggingageiranum hafa að minnsta kosti 34 fyrirtæki farið í greiðsluþrot og að minnsta kosti 16 orðið gjaldþrota.

Eins og fram hefur komið í úttekt Viðskiptablaðsins er byggingamarkaðurinn helfrosinn og fjöldi nýrra íbúða og atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu og víðar stendur auður og óseldur. Þá er búið að leggja drög að nýjum hverfum svo sem í Garðabæ og Mosfellsbæ en byggingu húsa á sömu slóðum hefur verið frestað. Götur hafa því verið lagðar en húsin eru óbyggð.