Heildarendurstofnvirði á innviðum á Íslandi er áætlað um 3.493 milljarðar króna að því er fram kemur í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins. Til samanburðar vísar skýrslan á að heildareignir lífeyrissjóðanna séu um 3.725 milljarðar króna.

Skýrslan fjallar um flugsamgöngur, fráveitur, hafnir, hitaveitur, vatnsveitur, orkuvinnsla, raforkuflutningar og -dreifing, úrgangsmál, vegagerð og fasteignir ríkis og sveitarfélaga og er mæld uppsöfnuð viðhaldsþörf í fjárhæðum.

Segir í skýrslunni að mest sé hún í vegagerð, fasteignum ríkisins, fráveitum og orkuflutningum, en á þessum sviðum hafi viðhaldið verið ábótavant.

Mest þörf í orkuvinnslu

Hæst er hið svokallaða endurstofnvirði, sem reiknast sem kaupverð eða kostnaðarverð sambærilegra innviða með sömu framleiðslu og/eða þjónustugetu, í orkuvinnslu. Þar reiknast það á milli 850 til 900 milljarðar króna.

Þvínæst kemur vegagerðin með 870 til 920 milljarða, 440 milljarðar í fasteignum ríkis og sveitarfélaga, 320 milljarðar í orkuflutningum og 240 til 280 milljarðar í flugvöllum. Lægst er það hins vegar í úrgangsmálum eða 35 til 40 milljarðar króna.

Skýrslan gefur innviðunum ástandseinkunn á stígandi skala þar sem 1 er verst en 5 hæst en að meðaltali fá innviðirnir ástandseinkunnina 3,0.

Ríkið þarf á einkaaðilum að halda

Skýrslan metur það svo að einkaaðilar verði að koma að uppbyggingu innviðanna því einkaaðilar geti ekki eitt og sér staðið í framkvæmdum upp á hundruð milljarða á næstu árum.

Áhugi sé til staðar hjá innlendum sem og erlendum fjárfestum og vegna þess að horfur í efnahagsmálum sýni að draga muni úr hagvexti og slakna á spennu sé því lag nú að hefja fjárfestingar í innviðum.

40 einbreiðar brýr á Hringveginum

„Víða um land eru hættulegir vegakaflar og á hringveginum eru enn hátt í 40 einbreiðar brýr. Margoft hefur komið fram að á höfuðborgarsvæðinu þurfi að bæta samgöngur talsvert,“ segir meðal annars í skýrslunni.

„Heilmikil raforka nýtist ekki sökum þess að flutningskerfi raforku er ófullkomið. Nauðsynlegt er að fara í fjárfestingar í uppbyggingu meginflutningskerfis til að tryggja nægt framboð raforku um land allt.“