Hagnaður var hlutfallslega mestur eftir sumarvertíðina hjá Icelandair Group í samanburði við önnur flugfélög á Norðurlöndunum á þriðja ársfjórðungi. Hlutfallið nam 16,1% í lok tímabilsins. Annað eins sást ekki í bókum annarra stórra flugfélaga. Til samanburðar nam hagnaðurinn 14,9% af veltu hjá norska flugfélaginu Norwegian. Lægsta hlutfallið var 3,9% hjá SAS. Allar afkomutölur eru umreiknaðar í íslenskar krónur.

Netmiðillinn Túristi fjallar um málið í dag og bendir á að SAS hagnaðist um jafnvirði rúmlega átta milljarða íslenskra króna á þriðja fjórðungi ársins. Til samanburðar nam hann 6,1 milljörðum hjá Icelandair Group. Bent er á að þrátt fyrir aukinn hagnað SAS og veltu þá hafi umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir fyrirtækisins fengið alla athyglina enda áformar félagið m.a. að fækka stöðugildum úr fimmtán þúsund niður í níu þúsund, lækka laun og selja eignir.

Hér má sjá félögin eftir hlutfall hagnaðar af veltu.

  1. Icelandair - 16,1%
  2. Norwegian - 14,9%
  3. Finnair - 7,8%
  4. SAS - 3,9%