Heildarviðskipti með hlutabréf í júlímánuði í Kauphöllinni námu 24.849 milljónum eða 1.080 milljónum á dag. Það er 22% lækkun frá fyrri mánuði, en í júní námu viðskipti með hutabréf 1.386 milljónum á dag. Þetta er 79% hækkun á milli ára (viðskipti í júlí 2014 námu 604 milljónum á dag). Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni.

Viðskipti voru mest með bréf Icelandair Group, 4.743 milljónir, Marel, 4.349 milljónir, Reita fasteignafélags, 2.507 milljónir, N1, 2.421 milljónir og Eik fasteignafélags, 1.473 milljónir.

Úrvalsvísitalan (OMXI8) hækkaði um 4,3% á milli mánaða og stendur nú í 1.542 stigum. Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Arion banki með mestu hlutdeildina, 26,4% (22,7% á árinu), Landsbankinn með 25,5% (29,8% á árinu), og MP banki með 17,4% (19,7% á árinu).

Í lok júlí voru hlutabréf 19 félaga skráð á Aðalmarkaði og Nasdaq First North á Íslandi.  Nemur heildarmarkaðsvirði skráðra félaga 899 milljörðum króna (samanborið við 864 milljarða í júní).