Í viðskiptayfirliti Nasdaq fyrir ágústmánuð kemur fram að heildarviðskipti með hlutabréf námu 49,9 milljörðum eða um tæplega 2,3 milljarða á dag. Þetta er 22% hækkun milli ára, en viðskipti í ágúst 2015 námu 1,8 milljarði á dag.

Mest viðskipti vorum með bréf Icelandair Group eða tæplega 11,3 milljarða. Viðskipti með bréf Reita fasteignafélags námu 7,4 milljörðum og viðskipti Haga námu rúmlega 5,2 milljörðum.

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Landsbankinn með mestu hlutdeildina í mánuðinum eða 24,6%, Arion banki með 21,3%, og Kvika banki með 17,5%.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 2% milli mánaða og stendur í 1.729 stigum.

Í lok júli voru voru hlutabréf 20 félaga skráð á Aðalmarkaði og Nasdaq First North á Íslandi. Nemur heildarmarkaðsvirði skráðra félaga 1.002 milljörðum.

Skuldabréf

Heildarviðskipti skuldabréfa nam 158 milljörðum í síðasta mánuði, sem nemur 7,2 milljarða veltu á dag. Það er því 85% hækkun milli ára.

Alls námu viðskipti með ríkisbréf 138,4 milljörðum, viðskipti með íbúðabréf námu 8,3 milljörðum, og viðskipti með bankabréf námu 8,1 milljarði.

Kvika banki var með mestu hlutdeildina á skuldabréfamarkaði í mánuðinum, 19,2%. Íslandsbanki var með 18,4% og Landsbankinn með 18%.

Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 3,9% í ágúst og stendur því í 1.220 stigum. Óverðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar hækkaði um 4,09% og sú verðtryggða hækkaði um 3%.