Heildarviðskipti með hlutabréf í febrúarmánuði námu 34.429 milljónum eða 1.721 milljón á dag. Það er 46% hækkun frá fyrri mánuði og 8% hækkun á milli ára. Þetta kemur fram í viðskiptayfirliti Nasdaq Iceland fyrir febrúar 2015.

Mest voru viðskipti með bréf Marel en þau námu 11.101 milljón króna. Næst komu Icelandair með 5.432 milljónir, N1 með 3.882 milljónir, HB Grandi með 3.374 milljónir og svo Hagar með 1.791 milljónir. Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,3% milli mánaða og stendur nú 1.377 stigum.

Á aðalmarkaði var Landsbankinn með mestu hlutdeildina eða 32,5%, Arion banki með 20,7% og Íslandsbanki með 20,5%. Í lok febrúar voru hlutabréf sautján félaga skráð á aðalmarkaði og Nasdaq First North á Íslandi og nemur heildarmarkaðsvirði þeirra 736 milljörðum íslenskra króna, samanborið við 734 milljarða í janúar.

Aukin velta í skuldabréfaviðskiptum

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 157 milljörðum í síðasta mánuði sem samsvarar 7,8 milljarða veltu á dag. Þetta er 67% hækkun frá fyrri mánuði og 6% hækkun frá fyrra ári.

Alls námu viðskipti með ríkisbréf 128 milljörðum en viðskipti með íbúðabréf námu 22,5 milljörðum. Mest voru viðskipti með RIKB 19 0226, 26,7 milljarðar, RIKB 31 0124, 16,5 milljarðar, RIKS 21 0414, 13,8 milljarðar, RIKB 16 1013, 12,9 milljarðar og RIKB 20 0205, 12,8 milljarðar.

Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) hækkaði um 1,9% í febrúar og stendur í um 1.105 stigum. Óverðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar (NOMXINOM) hækkaði um 0,8% og sú verðtryggða (NOMXIREAL) hækkaði um 2,3%.