Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland tók mikla dýfu á viðburðarríkum degi á íslenska hlutabréfamarkaði í dag. Nam lækkunin 6,07% og fór vísitalan niður í 1.615,53 stig í 5,3 milljarða viðskiptum.

Á sama tíma lækkaði Aðalvísitala Skuldabréfa mjög lítið eða um 0,04% niður í 1.250,81 stig.

Icelandair hrundi í verði

Eftir afkomuviðvörun Icelandair Group lækkuðu bréf félagsins hratt í verði strax frá opnun markaða og nam lækkunin á stundum meira en 25% en við lok markaða nam lækkunin í heild 23,98% í 1,4 milljarða viðskiptum.

Næst mest lækkun var á gengi bréfa VÍS, en lækkun bréfa félagsins nam einungis 2,37% í 45 milljón króna viðskiptum og standa bréf félagsins nú í 9,05 krónum hvert að verðgildi.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Marel, eða 1,2 milljarðar, en bréf félagsins lækkuðu um 1,31% þannig að hvert bréf þess fæst nú á 264,00 krónur.

Nýherji og Össur einu sem hækkuðu

Einu tvö félögin sem hækkuðu í verði í kauphöllinni í dag var Nýherji sem hækkaði um 6,53% í 24 milljón króna viðskiptum, en í gærkvöldi sendi félagið frá sér jákvæða afkomuviðvörun. Er hvert bréf félagsins nú verðlagt á 25,30 krónur.

Gengi bréfa í Össur hækkaði einnig, eða um 1,28% í 3,7 milljón króna viðskiptum svo nú fæst hvert bréf félagsins á 395,00 krónur.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði um 5% í dag í 5,3 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma lækkaði lítillega í dag í 2,8 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,1% í 0,4 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði lítillega í 2,1 milljarða viðskiptum.