Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,05% í viðskiptum dagsins og stendur nú í 1.714 stigum. Velta dagsins á aðalmarkaði hlutabréfa nam tæplega 1,5 milljörðum króna.

Af Úrvalsvísitölufélögunum voru mestu viðskiptin með bréf í Icelandair Group, en gengi bréfanna hækkaði um 0,22% og það í rúmlega 457 milljón króna viðskiptum. HB Grandi hækkaði einnig og það um 0,29% í rúmlega 192 milljón króna viðskiptum. Þá hækkaði Marel um 0,21% í 52 milljón króna viðskiptum.

Af úrvalsvísitölufélögunum lækkuðu Reitir mest og það um 0,53% en heildarviðskipti dagsins námu tæplega 161 milljón króna. N1, Síminn og Eimskip lækkuðu öll um rúmlega 0,30% og það í mis miklum viðskiptum.

Lítil hreyfing var á öðrum félögum á aðalmarkaði kauphallarinnar. Gengi bréfa í Eik, Sjóvá og Skeljungi lækkaði lítillega, aftur á móti hækkaði Tryggingamiðstöðin um 1,26% í einungis 249.645 króna veltu.

Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði um 0,02% og er lokagildi hennar 1.248,66 stig. Vísitalan hefur því hækkað um 6,49% á þessu ári.