Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland tók við sér í dag eftir töluverðar lækkun í vikunni og fór hún upp um 0,74%. Náði hún 1.717,54 stigum í 2,3 milljarða viðskiptum. Aðalvísitala Skuldabréfa lækkaði hins vegar um 0,06 í rétt rúmlega 5 milljarða viðskiptum, og var lokagildi hennar 1.362,73 stig.

Einungis eitt félag, Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, lækkaði í kauphöllinni í dag, en það var um 0,31% í mjög litlum eða rétt rúmlega 8 milljón króna viðskiptum. Standa bréf félagsins nú í 64,40 krónum.

Mest hækkun var hins vegar á bréfum Origo, sem hækkuðu um 1,62%, einnig í litlum viðskiptum eða fyrir 29 milljónir króna. Fæst hvert bréf félagsins nú á 25,15 krónur. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Eik fasteignafélags, sem hækkaði um 1,51% upp í 10,10 krónur í 77 milljón króna viðskiptum.

Mest viðskipti voru svo með bréf Marel, eða fyrir 826 milljónir króna og nam hækkun bréfanna 0,74%. Gengi bréfanna er nú 341,00 krónur. Næst mest viðskipti voru svo með bréf Regins fasteignafélags, eða fyrir 506 milljónir króna og hækkaði gengi bréfanna upp um 0,29% í 26,05 krónur.