Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,15% í dag og er því komin upp í 2.018,84 stig en heildarviðskipti dagsins námu 815,7 milljónir króna.

Mest hækkun var á bréfum Heimavalla sem fóru upp um 5,98% í þó ekki nema viðskiptum upp á 43 þúsund krónur. Næst mesta hækkunin var svo á bréfa Eimskip sem hækkaði um 1,42%, í viðskiptum upp á 8 milljónir og endaði því gengi félagsins í 178,5 krónum.

Þriðja mesta hækkun var á gengi bréfa Arion Banka sem hækkaði um 0,63% í viðskiptum upp á 270 milljónir, sem er á sama tíma mestu viðskipti dagsins við eitt félag.

Mest lækkun var á bréfum Origo, áður Nýherji, en bréf þeirra lækkuðu um 1,25% í viðskiptum sem nema 4 milljónir króna.

Gengi íslensku krónunnar lækkaði nokkuð gagnvart þremur af sínu helstu gjaldmiðlum. Lækkunin var hvað mest gagnvart breska pundinu eða 0,95%, lækkaði hún svo um 0,5% við sænsku krónuna og 0,35% gagnvart þeirri norsku. Mest hækkaði krónan gagnvart japanska jeninu eða um 0,79%.