Heildarviðskipti með hlutabréf í janúar mánuði námu rúmum 3.493 milljónum eða 184 milljónum á dag að því er kemur fram í yfirliti frá Nasdaq OMX Iceland.  Þessu til samanburðar var veltan með hlutabréf í desembermánuði rúmar 3.163 milljónir, eða 150 milljónir á dag.  Mest voru viðskipti með bréf Føroya Banki 2.627 milljónir og með bréf Össurar 502 milljónir.

Markaðsvirði skráðra félaga var 199 milljarðar í lok síðasta mánaðar og lækkaði um 4% á milli mánaða.  Markaðsvirði bréfa Össurar nam rúmum 72 milljörðum og er það félag stærst að markaðsvirði skráðra félaga.  Næst í stærð er Marel en markaðsvirði þess nemur rúmum 43 milljörðum og bréf Føroya Banki en markaðsvirði þess er rúmir 31 milljarðar.

Úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði um 1,0% milli mánaða og stendur nú í 806,6 stigum.  Af atvinnugreinavísitölum hækkaði vísitala heilbrigðisgeira (IX35PI) mest eða 3,6%.