Tryggingafélagið Vörður hagnaðist um 658 milljónir króna á síðasta ári eftir skatta samanborið við 385 milljóna króna hagnað árið 2014. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins. Í tilkynningu sem kom í kjölfar uppgjörsins segir að þetta sé mesti hagnaður sem félagið hefur skilað frá upphafi.

Tjón ársins voru 4,6 milljarðar króna og jukust um 17,4% á milli ára. Iðgjöld námu 5,8 milljörðum og fjárfestingatekjur voru 1,2 milljarðar króna sem er 161% meira en árið 2014.

Samsett hlutfall, þ.e. tjónakostnaður og rekstrarkostnaður sem hlutfall af iðgjöldum var 105,8% árið 2015 samanborið við 98,3% árið áður. Í tilkynningunni segir að hækkunin skýrist helst af auknum tjónakostnaði í ökutækjatryggingum.

Gul merki

Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Þar segir hann að afkoman sé að mestu í samræmi við áætlanir félagsins. „Þetta er besta afkoman sem við höfum fengið af rekstri félagsins,“ segir hann.

„Samsetningin er hins vegar ekki sú sem við ætluðum vegna þess að vátryggingaafkoman er töluvert verri, en afkoman af fjármálastarfseminni var, eins og hjá hinum, mikið betri. Ég hef áhyggjur af þessari þróun vegna þess að þú getur ekki treyst á afkomu af fjárfestingarstarfsemi. Hún getur verið góð en langvarandi afkoma af svona starfsemi verður að koma frá vátryggingastarfseminni. Afkoman var því góð, en það eru ákveðin gul merki sem við þurfum að passa.“

Nánar er rætt við Guðmund í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.