Á síðasta ári var meiri hlutfallsleg aukning almennrar forgangsorku en sést hefur í tæp tuttugu ár eða frá 1987. Þetta kemur fram í samantekt Orkustofnunar. Þessi mikla aukning skýrist m.a. af framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun þar sem mikil raforka er notuð við framkvæmdirnar. Ef sá þáttur er tekinn út verður aukning annarrar almennrar notkunar svipuð og hún var á árunum 1999 til 2001. Sveiflur í raforkunotkun eru að jafnaði í takt við sveiflur í landsframleiðslunni, en þó yfirleitt minni í raforkunotkuninni.

Hagvaxtarbreytingar skila sér þó ekki strax í raforkunotkun svo sem þegar hagvaxtarskeið hófst árið 1994 en það kom ekki fram í raforkunotkun fyrr en 1995.

Árið 2004 nam raforkuvinnsla á landinu samtals 8.619 GWh (ein GWh, gígavattstund er milljón kílóvattstunda) og hafði þá aukist um 1,5% frá árinu áður. Raforkunotkun stóriðjuveranna nam 5.231 GWh en almenn notkun 3.134 GWh. Notkun stóriðju stóð í stað frá árinu 2003 eftir mikla aukningu á árunum 1996-2003. Aukin notkun stóriðju á þeim árum er álíka mikil og öll almenn notkun á landinu á síðasta ári.

Byggt á upplýsingum á heimasíðu Orkustofnunar.