Mikill vöxtur var í kortaveltu Íslendinga í nóvember sl. og aukningin hefur ekki verið meiri síðan í ágúst 2007. Þetta kemur fram í kortaveltutölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær, en Íslandsbanki birti í dag greiningu á veltunni.

Kortavelta Íslendinga í útlöndum var einnig umfram kortaveltu útlendinga hér á landi. Þetta er í fyrsta sinn á árinu sem þetta gerist en þeta atvikaðist síðast í desember í fyrra.

Kortaveltan jókst að raunvirði um 14,1% milli ára í nóvember sl., þar af jókst kortavelta Íslendinga innanlands um 12,9% (m.v. vísitölu neysluverðs án húsnæðis) og kortavelta Íslendinga erlendis um 22,1%. Að sögn Íslandsbanka má rekja hluta aukningarinnar til þess að Íslendingar hafa tekið nýjum tilboðsdögum fagnandi, s.s. Black Friday og Cyber Monday .

Þessi aukning í kortaveltu er merki um að talsverður vöxtur er í einkaneyslu. Í október og nóvember samanlagt var kortavelta einstaklinga 10% meiri að raunvirði en á sama tímabili í fyrra. Þó geti verið að ofannefndir tilboðsdagar hafi fært jólaverslunina framar í tímann og því verði ekki eins mikil aukning í desembermánuði.

Kortavelta útlendinga eykst um 41% milli ára

Kortavelta útlendinga nam 9,2 milljörðum í nóvember en hún var 6,5 milljörðum í sama mánuði árið áður. Þetta er 41% aukning frá fyrra ári. Ferðamálastofa hefur enn sem komið er ekki birt tölur um fjölda erlendra ferðamanna í nóvember, en út frá þessum tölum má ætla að það hafi verið dágóð fjölgun á þeim á milli ára líkt og verið hefur alla mánuði ársins.