Í síðustu viku höfðu 10 þúsund nýir bílar selst hér á landi það sem af er þessu ári og hefur slík tala ekki sést eftir efnahagshrunið 2008. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.

Í lok vikunnar höfðu selst 10.152 nýir bílar, þar af 4.376 til bílaleiga, 3.905 til einstaklinga og 1.871 til fyrirtækja annarra en bílaleiga. Í sömu viku í fyrra höfðu selst 7.709 nýir bílar og nemur heildaraukningin því 32%.

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, segir í samtali við Morgunblaðið að sala nýrra bíla til einstaklinga sé enn mjög lítil í sögulegu samhengi og þá minnstu frá 2003 þegar einstaklingar keyptu 3.512 nýja bíla. Þá var salan hlutfallslega meiri miðað við fólksfjölda.