Hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Bandaríkjunum í dag en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar er þetta mesta dagshækkun í rúman mánuð, eða frá 16. desember s.l.

Talið er að hækkanir dagsins megi annars rekja til góða afkomutalna félaga á borð við IBM og hins vegar til vona fjárfesta um að ný ríkisstjórn vestanhafs muni láta hendur standa fram úr ermum í efnahagsaðgerðum næstu vikur. Þá má ekki gleyma hækkandi hrávöruverði.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 4,6%, Dow Jones um 3,5% og S&P 500 um 4,4%.

Hráolíuverð hækkaði nokkuð í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 44,14 Bandaríkjadali og hafði þá hækkað um 8,1% í dag.