Iðnaðarframleiðsla í Þýskalandi féll um 3,6% milli mánaða í september og er um að ræða mesta fall í 13 ár, samkvæmt hagtölum sem efnahagsmálaráðuneyti landsins birti í dag. Í gær birti sama ráðuneyti tölur um að pantanir á framleiðsluvörum hafi fallið um 8% og er það mesta fall frá því að byrjað var að halda slíkum tölum til haga árið 1991. Þetta þykir styrkja þá skoðun að þýska hagkerfið stefnir í alvarlegt samdráttarskeið. Hagtölurnar er dekkri en sérfræðingar bjuggust við en samkvæmt könnun Dow Jones-fréttaveitunnar þá bjuggust hagfræðingar við 2% samdrætti í iðnaðarframleiðslu. Þýska hagkerfið dróst saman um 0,5% á öðrum fjórðungi og flestir hagfræðingar eiga von á því að það hafi gert slíkt hið sama á þeim þriðja. Hagvaxtartölur þriðja fjórðungs verða birtar þann 13. Nóvember.