*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Erlent 21. júlí 2020 11:05

Bezos verðmætari en Nike og McDonalds

Auðæfi Jeff Bezos jukust um 13 milljarða dollara í gær og eru nú metin á 189 milljarða dollara.

Ritstjórn
Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon
epa

Í gær jókst auður Jeff Bezos, stofnanda Amazon, um 13 milljarða dollara eða um meira en 1.800 milljarða íslenskra króna. Það er hæsta stökk auðæfa eins manns á einum degi frá því að milljarðavísitala Bloomberg var stofnuð árið 2012. Time segir frá

Hlutabréf Amazon hækkuðu um 7,9% á mánudaginn, sem er mesta hækkun þeirra síðan desember 2018. Gengi hlutabréfa netrisans hafa nú hækkuð um 73% á árinu. 

Auðæfi Bezos hafa hækkað um 74 milljarða dollara á árinu, þrátt fyrir eina mestu efnahagsniðursveiflu frá Kreppunni miklu, og nema nú um 189,3 milljarða dollara. Auður Bezos er nú meiri en markaðsvirði Exxon Mobil, Nike og McDonalds. 

Auðæfi Mackenzie Bezos, fyrrum eiginkonu Jeff Bezos, hækkuðu einnig um 4,6 milljarða dollara í gær en hún er nú þrettánda ríkasta manneskja heims samkvæmt vísitölu Bloomberg.  

Auður Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, hefur að sama skapi aukist um tæplega 15 milljarða dollara á árinu, þrátt fyrir sniðgöngu fyrirtækja á samfélagsmiðlunum á síðustu misserum.