Seðlabankinn telur horfur á að launakostnaður á framleidda einingu hækki um 9% í ár og samtals um liðlega 18% á árunum 2022-2023. Það sé 5 prósentum meiri hækkun en bankinn gerði ráð fyrir í nóvember síðastliðnum.

„Gangi þetta eftir yrði hækkun launakostnaðar á framleidda einingu í ár sú mesta á einu ári síðan árið 2006,“ segir febrúarhefti Peningamála sem birt var í morgun.

Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði stýrivexti úr 6,0% í 6,5% í morgun. Í yfirlýsingu sinni lýsti nefndin því að verðbólguhorfur hefðu versnað frá síðasta fundi hennar, sem megi einkum rekja til nýgerða kjarasamninga sem feli í sér töluvert meiri launahækkanir en gert var ráð fyrir.

„Mun kostnaðarsamari og framhlaðnari en búist var við“

Nefndin vísar þar til samninga Samtaka atvinnulífsins við Starfsgreinasambandið og VR í desember síðastliðnum. Þá voru endurnýjaðir kjarasamningar við um 80% launafólks á almennum vinnumarkaði. Samningarnir taka við af fyrri samningum og gilda frá 1. nóvember 2022 til janúarloka 2024.

Í megindráttum felst í samningunum 33 þúsund króna almenn hækkun og 35-52 þúsund króna hækkun á kauptaxta fyrir lægri laun en 6,75% hækkun á hærri laun, þó þannig að hækkunin verði ekki meiri en 66 þúsund krónur. Þá hækka laun vegna frekari breytinga á launatöflum og hagvaxtarauka er flýtt og hann greiddur út samhliða.

„Ljóst er að þessir samningar eru bæði mun kostnaðarsamari og framhlaðnari en búist var við í síðustu grunnspá bankans,“ segir í Peningamálum. Niðurstaðan sé í raun áþekk fráviksdæmi sem birt var í nóvemberhefti Peningamála sem gerði ráð fyrir meiri launahækkunum.

Hætta á launaskriði

Bent er á að í grunnspá bankans í nóvember var áætlað að laun á vinnustund hafi hækkað um 7,8% milli ársmeðaltala í fyrra og að þau hækki um 6% í ár, eða samtals 14,3% á þessum tveimur árum. Nú telur bankinn að þau hafi hækkað um 8,6% í fyrra og hækki um 9,4% í ár eða samtals 18,8% yfir þetta tveggja ára tímabil.

„Um þessa þróun ríkir hins vegar óvissa enda á eftir að semja við nokkra hópa launþega. Grunnspá bankans gerir ráð fyrir að samið verði við þá á svipuðum nótum og í nýgerðum samningum.“

Þá segir Seðlabankinn að einnig sé hætta á frekara launaskriði við framkvæmd kjarasamninganna vegna mikils skorts á vinnuafli.

Telja að atvinnuleysi aukist lítillega

Í Peningamálum er bent á að heildarvinnustundum „fjölgaði mikið“ á fjórða fjórðungi síðasta árs eftir fækkun á þeim þriðja. Atvinnuþátttaka jókst einnig og atvinnuleysi minnkaði lítillega.

„Aðrar vísbendingar af vinnumarkaði benda til áframhaldandi skorts á vinnuafli en nýgerðir kjarasamningar gætu hægt á vexti vinnuaflseftirspurnar. Talið er að atvinnuleysi aukist lítillega á spátímanum á sama tíma og draga tekur úr álagi á framleiðsluþætti.“

Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar (VMK) fjölgaði árstíðarleiðréttum heildarvinnustundum um 3,7% milli fjórðunga á fjórða fjórðungi síðasta árs og um 5,9% milli ára. Seðlabankinn segir að þetta sé töluvert meiri fjölgun en nóvemberspá bankans gerði ráð fyrir en þá var búist við að þeim myndi áfram fækka lítils háttar eftir fækkun á þriðja fjórðungi.

„Þróunina á fjórða ársfjórðungi má rekja til fjölgunar starfa en þar leggjast á eitt stígandi íbúafjölgun og snörp aukning atvinnuþátttöku. Gögn úr staðgreiðsluskrá sýna áþekka fjölgun starfa.“

Árstíðarleiðrétt atvinnuleysi mældist 3,7% á fjórðungnum samkvæmt VMK sem er litlu minna en á fjórðungnum á undan en skráð atvinnuleysi var enn minna eða 3,4%. Seðlabankinn telur að atvinnuleysi samkvæmt VMK verði 4% í ár en verði komið í 4,6% árið 2025 og að skráð atvinnuleysi þróist með áþekkum hætti.