Í janúar var mesta hækkun á fjölbýli síðan í maí í fyrra að því er kemur fram í nýrri greiningu Hagfræðideildar Landsbankans. Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 1,0% í janúar. Þar af hækkaði verð á fjölbýli um 1,1% og verð á sérbýli hækkaði um 0,7%.

Hækkunin í janúar þarf þó ekki að ráska spám um meiri ró á húsnæðismarkaði. Verð á fjölbýli hefur hækkað um 12% á síðustu 12 mánuðum og verð á sérbýli um 15%. Heildarhækkun húsnæðisverðs nemur 13%. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hafði nú í janúar hækkað um 2,4% á síðustu sex mánuðum, en hækkaði um 8,5% næstu sex mánuði þar á undan.

Í greiningu Hagfræðideildar segir einnig að allt frá árinu 2016 hafi dregið í sundur milli hækkunar fasteignaverðs og hækkunar byggingarkostnaðar. Samkvæmt þeim einfalda samanburði hafi orðið sífellt hagstæðara að byggja húsnæði til þess að selja. Það tók að breytast sl. sumar þegar hækkanir á raunverði fjölbýlis drógust verulega saman á sama tíma og byggingarkostnaður, mældur með vísitölu byggingarkostnaðar, tók að hækka. Þessir ferlar hafa nú nálgast hvorn annan og innbyrðis staða þeirra er svipuð nú og var á seinni hluta ársins 2016.