Vörukarfa sem endurspegla á almenn matarinnkaup meðalheimilis hefur hækkað um á bilinu 0,5 til 2,6% frá því í maí í sjö verslunarkeðjum að því er fram kemur í mælingu verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands .

Þar af var hækkunin mest í Nettó, eða 2,6% en næst mest í Bónus eða 2,4%, en minnst í annarri verslun Haga, Hagkaupum eða um 0,5%. Í þeirri verslun lækkaði jafnframt verð lítillega á sumum vörum eins og sykri, súkkulaði og sælgæti, en um 1,8% á kjötvöru, meðan brauð og kornvörur stóðu í stað.

Í öllum hinum verslununum nam hækkunin á bilinu 1,5 til 2,6%, en af lágvöruverðsverslununum þremur, Bónus, Nettó og Krónunni var lækkunin minnst í þeirri síðastnefndu eða 1,5%.

Af verslunum sem ekki teljast lágvöruverslanir vegna lengri opnunartíma eða staðsetningu á fleiri stöðum má sjá að mesta hækkunin á vörukörfunni er hjá Iceland eða 2,1%, samanborið við 1,8% í Kjörbúðinni og 1,7% í Krambúðinni.

Grænmeti hækkaði um 20% á einu ári

Mælingarnar fóru annars vegar fram 18. til 25. maí og hins vegar 2. til 9. nóvember, en vörukarfan er sett saman með hliðsjón af vog Hagstofunnar til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Verð hækkaði í flestum vöruflokkum mælinganna en minnstu verðhækkanirnar voru í flokki grænmetis og ávaxta og kjötvara og lækkaði verð í þeim vöruflokkum í einhverjum tilfellum.

Grænmeti og ávextir eru þó sá flokkur sem sveiflast mest meðal matvara í verði en miklar verðhækkanir urðu á þeim í vor eftir að kórónuveirufaraldurinn fór af stað. Mátti sjá í mörgum tilfellum fimmtungshækkun verðs á grænmeti í mörgum tilfellum yfir árið í síðustu verðmælingu ASÍ sem framkvæmd var í maí.

Mest hækkaði vörukarfan eins og áður segir í Nettó um 2,6%. Munar þar mestu um hækkun drykkjarvara 5,6% og hækkun á mjólkurvörum og ostum, 5,1%. Næst mest hækkaði vörukarfan í Bónus, 2,4% en þar hækkuðu grænmeti og ávextir mest eða um 6,8% og þá hækkuðu mjólkurvörur og ostar um 4,5%.

Minnst hækkaði vörukarfan í Hagkaup, 0,5% en þar lækkaði verð á kjötvöru um 1,8% milli mælinga. Sykur, súkkulaði og sælgæti lækkaði einnig lítillega í verði í Hagkaup en verð á brauði- og kornvörum stóð nánast í stað milli mælinga. Drykkjarvörur hækkuðu þó mikið í Hagkaup eða um 6,2%.