Íbúðaverð í fjölbýli hefur hækkað mest á höfuðborgarsvæðinu frá ársbyrjun 2013 til ársloka 2015 eða um 20%. Meðalkaupverð fasteigna á höfuðborgarsvæðinu var 30,6 milljónir króna á árinu 2013 en var 36,7 milljónir króna árið 2015. Meðal fermetraverð á hækkaði um sama hlutfall, en það fór úr 267 þúsund krónum árið 2013 í 320 þúsund árið 2015.

Meðalkaupverð hækkaði minnst á Suðurlandi og Reykjanesi, en í báðum landshlutum hækkaði kaupverð fasteigna um 6%. Á Reykjanesi var meðalkaupverð fasteigna tæpar 19,8 milljónir árið 2013 og 21,1 milljón árið 2015. Á Suðurlandi hækkaði meðalkaupverð fasteigna úr 21,1 milljón í 22,4 á sama tímabili. Meðalfermetraverð hækkaði þó meira á Reykjanesi, um 11%, en á Suðurlandi þar sem það hækkaði um 10%.

Athygli vekur að fasteignaverð á Vestfjörðum hefur hækkað nánast að sama marki og á höfuðborgarsvæðinu. Meðalkaupverð fasteigna hefur hækkað um 19%, en það er næstmesta hækkun á eftir höfuðborgarsvæðinu og meðal fermetraverð hefur hækkað um 15% á tímabilinu. Utan höfuðborgarsvæðisins er það einungis á Vesturlandi sem meðal fermetraverð hefur hækkað jafn mikið og á Vestfjörðum, eða 17%.

Vestfirðir skera sig úr

Fjöldi seldra íbúða hefur einnig almennt aukist mikið á tímabilinu. Á höfuðborgarsvæðinu seldust 5.003 eignir, fjölbýli og sérbýli, árið 2013, en árið 2015 voru þær 6.490. Þetta er aukning um 29,7% á tímabilinu. Mest var aukningin á Vesturlandi. Þar seldust 169 eignir árið 2013 en árið 2015 voru þær 413, en þetta er aukning um 144% á tímabilinu. Svipaða sögu er að segja af Reykjanesi, en þar var aukningin úr 330 eignum í 697, eða aukning um 111%. Töluverð fjölgun á seldum eignum var einnig á Suðurlandi, eða aukning um 66%, Austurlandi um 42% og Norðurlandi um 35%.

Einungis á Vestfjörðum var fækkun í seldum íbúðum á tímabilinu. Þar voru seldar íbúðir árið 2013 alls 124 en þær voru 115 árið 2015, en það er fækkun um 7%.

Nánar má lesa um þróun fasteignaverðs á landinu í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Fasteignir sem kom út núna á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu með að smella á hnappinn Innskráning.