*

laugardagur, 4. desember 2021
Erlent 4. janúar 2021 10:30

Mesta hækkunin ríflega áttföldun

Á eftir 743% hækkun rafbílaframleiðandans á árinu 2020 kom netverslun um handgerðar vörur sem fjórfaldaðist í virði.

Ritstjórn
Elon Musk forstjóri Tesla sem hækkaði mest í virði á árinu kom einnig að uppbyggingu annars af þeim fyrirtækjum sem hækkuðu mest í fyrra.
european pressphoto agency

Hlutabréfaverð Teslu hækkaði langmest fyrirtækja innan S&P 500 vísitölunnar í Bandaríkjunum á árinu 2020, en þar á eftir kom netverslun um handgerðar vörur sem fjórfaldaðist.

Rafbílaframleiðandinn Tesla hækkaði um 743% á síðasta ári sem er langmesta hækkun á bréfum í einu félagi innan S&P 500 vísitölunnar, að því er Morgunblaðið greinir frá upp úr samantekt Marketwatch tímaritsins. Viðskiptablaðið sagði frá því að félagið var tekið inn í vísitöluna seint á síðasta ári.

Þar á eftir kemur netverslunin Etsy sem sérhæfir sig í handgerðum og heimagerðum vörum sem rétt um fjórfaldaðist í verði á árinu, það er hlutabréfaverðið hækkaði um 302%.

Þriðja mesta hækkunin var á bréfum Nvidia Corp sem hækkaði um 122%, en fyrirtækið er tæknifyrirtæki sem hannar grafískar lausnir fyrir tölvuleiki og fyrirtæki.

Fjórða mesta hækkunin var á bréfum PayPal, eða um 117%, en fyrirtækið er ein þekktasta greiðslulausnin á netinu. Meðal þeirra sem komu snemma að því fyrirtæki voru Elon Musk nú forstjóri Tesla og Peter Thiel sem var fyrsti fjárfestirinn í Facebook.

Í fimmta sæti yfir þau félög sem hækkuðu mest á árinu er svo L Brands, sem hækkaði um 105%, eða ríflega tvöfalaðist í verði, en félagið er bandarísk tískuvörukeðja sem inniheldur m.a. vörumerkin Victoria´s Secret og Bath & Body Works.

Stikkorð: Hlutabréf