Hlutabréf í Bandaríkjunum hækkuðu meira en þau hafa gert í viku í dag. Það sem veldur er lækkun stýrivaxta Seðlabankans þar í landi og að áhyggjur manna af slæmu gengi Lehman Brothers Holdings Inc. og Goldman Sachs voru meiri en tilefni var til, eins og greint var frá í dag .

Bloomberg fréttaveitan hefur eftir sérfræðingnum Richard Bove að menn megi ekki álykta að Lehman Brothers muni riða til falls þó að Bear Stearns hafi gert það. Þó að þessi fyrirtæki eigi margt sameiginlegt þá er einnig margt ólíkt með þeim, einkum að Lehman hafi meiri fjölbreytni í erlendum fjárfestingum.

Standard og Poor´s hækkaði um 42,5 stig, eða 3,3% og er nú 1.319 stig. Dow Jones hækkaði um 2,6% og er nú 12.286,6 stig. Nasdaq hækkaði einnig, um 3,4% og er nú 2.250 stig.