Ríkisbréf og Íbúðabréf hækkuðu töluvert í dag í miklum viðskiptum og hækkaði GAMMA: GBI um 0,82% sem er mesta dagsbreyting frá 4. ágúst 2009 að því er fram kemur í tilkynningu frá GAM Management..„ Ástæðu mikillar eftirspurnar í dag eftir bæði verðtryggðum og óverðtryggðum bréfum má rekja til fréttar í Viðskiptablaðinu í morgun þar sem minnst er á að frumvarp til nýrra laga um innstæðutryggingar hafi verið lagt fram á Alþingi síðastliðinn mánudag,“ segir í tilkynningunni.

Vísitala verðtryggðra skuldabréfa hækkaði í dag um 0,95% en óverðtryggða skuldabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,44%. Á bak við þessi viðskipti voru viðskipti með skuldabréf fyrir 19,4 milljarða króna. Þar af var velta með íbúðabréf 8,3 milljarðar og með ríkisbréf fyrir 11,1 milljarð króna.