Flest bendir til þess að frumvarp um björgunaraðegerðir á bandarísku fjármálamörkuðunum verði samþykkt á Bandaríkjaþingi, líkt og þegar hefur verið greint frá.

Ef svo verður, þá eru aðgerðirnar umfangsmesta íhlutun bandarískra stjórnvalda á mörkuðum síðan í kreppunni miklu árið 1929.

BBC segir frá því að bandarísku forsetaframbjóðendurnir, Barack Obama og John McCain, hafi báðir hafa báðir lýst yfir stuðningi sínum við aðgerðirnar. McCain hafi sagt að grunnhugmyndir frumvarpsins lofi góðu, þó enn eigi hann eftir að sjá ýmis smáatriði. Hann vonist þó til þess að geta greitt frumvarpinu atkvæði á mánudag.

Obama hefur tekið í svipaðan streng, og segir hann þessar aðgerðir því miður nauðsynlegar á þessum víðsjárverðu tímum.

Fáist frumvarpið samþykkt í þinginu þá munu stjórnvöld fá heimild til þess að nota allt að 700 milljarða bandaríkjadala til stuðnings fjármálafyrirtækjum sem standa mörg hver höllum fæti.

Samkvæmt Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, standa áætlanir til þess að nota 250 milljarða bandaríkjadala strax, 100 milljarða viðbót verður svo háð ákvörðun forseta Bandaríkjanna, sem mun ákveða hvenær nauðsyn standi til þess að nota hana. Þeir 350 milljarðar sem eftir standi verði svo á höndum þingsins, en sú fárhæð verður aðeins notuð í mikilli neyð að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Stjórnvöldum gefst þannig færi á því að borga skuldir banka og fjármálafyrirtækja. Skattborgarar í bandaríkjunum hafa ekki allir tekið þessum aðgerðum fagnandi og eru ósáttir með að almannafé sé varið í björgun einkafyrirtækja. Sérfræðingar benda þó á að það sé almenningi fyrir bestu að fjármálamarkaðir haldist stöðugir.