*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Innlent 19. mars 2019 19:03

Mesta lækkun íbúðaverðs frá 2010

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 1,0% í febrúar sem er mesta mánaðarlækkun frá desember 2010.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 1,0% í febrúar samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands. Það er mesta lækkun milli mánaða síðan í desember 2010 þegar íbúðaverð lækkaði um 1,2% milli mánaða. Á þetta er bent í samantekt hagdeildar Íbúðalánasjóðs. Vísitala íbúðaverðs mælir breytingu á íbúðaverði samkvæmt þinglýstum kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu hverju sinni.

Árshækkun íbúðaverðs mælist nú 3,7% sem er minnsta 12 mánaða hækkun sem hefur mælst síðan í maí 2011. Fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 1% milli janúar og febrúar og sérbýli ögn meira eða um 1,2%.

Bent er á að töluvert flökt geti verið á mælingum milli mánaða, þar sem tegundir þeirra fasteigna sem ganga kaupum og sölum séu ólíkar. Vísitalan taki eingöngu tillit til stærðar og þess hvort um er að ræða fjölbýli eða sérbýli auk þess að ekki er tekið tillit til þess hvort um nýbyggingu er að ræða eða ekki.

Íbúðalánasjóður segir sínar athuganir á verðbreytingum með vísitölu paraðra viðskipta, þar sem viðskipti með nýbyggingar eru ekki tekin með, hafi áður bent til þess að hækkanir á íbúðaverði kynnu að vera ofmetnar. „Niðurstaðan í þessum staka mánuði nú sem sýnir lækkun milli mánaða gæti skýrst af því að hluti þess ofmats sé að ganga tilbaka,“ segir í greiningu Íbúðalánasjóðs.

Þá gæti aukið magn af nýbyggingu valdið meira flökti á verðbreytingum milli mánaða. Fermetraverð þeirra sé alla jafna hærri en eldri íbúða og því geti mikil sala þeirra í einum mánuði til þess næsta gæti skekkt vísitöluna. Hafi hlutfall nýbygginga verið meira í janúar en í febrúar kunni það að skýra lækkunina að hluta.