Hrein eign lífeyrissjóðanna lækkaði um tæplega 33 milljarða í nóvember, eða alls 2% og hefur ekki lækkað svo mikið í einum mánuði frá því mælingar hófust árið 1997. Hrein eign lífeyrissjóðanna var 1.646 milljónir í nóvemberlok, að því er fram kemur í upplýsingum sem Seðlabanki Íslands birti í dag.

Lækkunina má að miklu leyti rekja til hlutabréfa, en staða innlendra hlutabréfa lækkaði um 32,3 milljarða króna og staða erlendra hlutabréfa lækkaði lítillega. Staða innlendra hlutabréfasjóða lækkaði um 2,2 milljarða króna og staða erlendra hlutabréfasjóða um 6,8 milljarða króna.

Á tólf mánaða tímabilinu til nóvemberloka jókst hrein eign sjóðanna um 207 milljarða króna eða 14,4% sem er mun hægari aukning en á árinu 2006 þegar hún jókst um 22,2%. Bankainnstæður drógust saman um 3,6 milljarða króna í mánuðinum.