Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, segir hagkerfi Bretlands nú standa frammi fyrir  mestu niðursveiflu sem þekkst hafi þar í landi í 60 ár. Hann segir líkur til þess að núverandi ástand muni vara lengur en menn hafi búist við.

Þetta kemur fram í viðtali við Darling í breska blaðinu Guardian.   Englandsbanki segir líkur á því að rúmlega tvær milljónir manna muni missa vinnuna fyrir jól. Alistair Darling viðurkennir að hann hafi ekki gert sér grein fyrir alvarleika lánsfjárkreppunar.

Darling hefur viðurkennt þá staðreynd að almenningur í Bretlandi sé reiður út í stefnuleysi verkamannaflokksins í efnahagsmálum. Stjórnaraðstaðan þar í landi hefur gagnrýnt aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar mjög.

Darling segir ríkisstjórnina hafa mistekist að undirbúa almenning undir aukin útgjöld og óöruggara starfsumhverfi. Hann segir að næstu tólf mánuðir muni verða þeir erfiðustu sem verkamannaflokkurinn hafi staðið frammi fyrir í langan tíma.