Sérfræðingar telja mikla áhættu fyrir evrópskt hagkerfi fólgna í forsetakosningum Bandaríkjanna, og bandarískum stjórnmálum almennt um þessar mundir. Aðalhagfræðingur hins danska Saxo banka, Steen Jakobsen, segir markaðsaðila vanmeta möguleikann á óljósri kosninganiðurstöðu eða hreinlega niðurstöðu sem önnur hliðin neitar að samþykkja. Ísland yrði þar ekki undanskilið.

Fari allt á versta veg í þeim efnum gæti það að hans sögn smitað út frá sér og haft áhrif á markaði og væntingar um allan heim. „Við óttumst að í kosningunum felist mesta pólitíska hætta í marga áratugi,“ sagði Jakobsen í síðustu viku, en hann metur líkurnar á deilum um úrslit kosninganna um 50%.

Samband Bandaríkjanna og Evrópusambandsins hefur versnað til muna eftir að Donald Trump tók við embætti, sem meðal annars hefur leitt til viðskiptahindrana. Telja má líklegt að þeirri þróun yrði að miklu leyti snúið við af Biden, beri hann sigur úr býtum. Á hinn bóginn er ekki loku skotið fyrir frekari slíkar hindranir haldi hann velli.

Forsetinn hefur hótað viðskiptastríði við Evrópu og sagði meðal annars í fyrra að á margan hátt hefði Evrópa „komið enn verr fram“ við Bandaríkin en Kína. Slíkt stríð hefði skaðleg áhrif á báða aðila, en þó verri á Evrópu, samkvæmt frétt CNBC um málið.

Þrátt fyrir það hefur miðillinn það eftir sérfræðingi hjá alþjóðlega fjárfestingabankanum Berenberg að Evrópusambandið sé eini aðilinn sem geti hér um bil slegið jafn fast til baka í óheftu viðskiptastríði við Bandaríkin.

Skattar og ríkisútgjöld hafi áhrif út fyrir landsteinana
Annað veigamikið atriði fyrir Evrópu, og heimsbyggðina alla, eru skattamál. Sérfræðingur Berenberg telur hættu á að ef Demókrataflokkurinn nær meirihluta í báðum þingdeildum auk forsetaembættisins, verði skattar hækkaðir og íþyngjandi reglur settar á vinnumarkaði, sem kunni að draga úr þrótti efnahagslífsins þar í landi, með neikvæðum áhrifum á heimshagkerfið allt, og þá sérstaklega þau lönd sem reiða sig á útflutning til Bandaríkjanna. Skiptar skoðanir eru hins vegar á því.

Líkleg áhrif kosninganna á íslenskan efnahag eru sambærileg og á Evrópu almennt, enda Ísland hluti af innri markaði Evrópusambandsins. Viðskiptahindranir og samdráttur alþjóðaviðskipta kemur sér þó sérstaklega illa fyrir lítil, sérhæfð hagkerfi eins og Ísland, sem reiða sig í meira mæli á utanríkisviðskipti en þau stærri.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .